Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands óneitanlega fylgjast grannt með þróun mála á Reykjanesskaga.
„Hvernig staðan verður um eftir rúma viku mun nær örugglega hafa áhrif á ákvörðun um peningastefnuna. Það gefur auga leið að ef það er enn þá er hætta á umtalsverðu efnahagslegu bakslagi sem svartsýnustu sviðsmyndir geta teiknað upp, sér í lagi ef öskugos loka flugvellinum. Það ætti að draga úr vilja þeirra til að hækka vexti ofan í slíkt ástand,“ segir Jón Bjarki.
Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar er eftir viku en Jón Bjarki útilokar ekki að bankinn muni seinka ákvörðuninni.
„Ef ekki er búið að leysast úr óvissunni held ég það ætti að vera skynsamlegt að sjá aðeins til. Því næsta vaxtaákvörðun er um mánaðamótin janúar/febrúar.“
Jón Bjarki teiknar upp þrjár sviðsmyndir sem gætu haft áhrif á ákvörðun bankans.
„Úr því sem komið er er þrennt sem getur gerst: Í fyrsta lagi að ástandið verði þannig að við verðum enn að bíða og það væri þá ráðlegt að bíða með vaxtaákvörðun þar til það skýrist. Í öðru lagi ef það kemur á daginn að þarna verða hamfarir sem hafa veruleg efnahagsleg áhrif þá mundi það mjög líklega ráða úrslitum um að ekki verða hækkaðir vextir. Í þriðja lagi að ef það er komið á daginn að það verður komið gos og áhrifin tiltölulega hófleg og gosið keimlíkt síðustu gosum þá erum við að horfa á ekki ósvipað ástand og áður en óróleikinn byrjaði. Sama gildir svo ef líkur á gosi minnka verulega. Alls ekkert víst að þau hækki samt vexti,“ segir Jón Bjarki.
„Fyrri tvær sviðsmyndirnar myndu líklega ráða úrslitum um að vextir yrðu ekki hækkaðir,“ bætir hann við að lokum.