Hin 74 ára Barbara Chalmers játaði sig seka um að draga sér 29 milljónir dala, eða sem nemur 4,1 milljarði króna, á undanförnum áratugi frá þekktri fjölskyldu í Dallas í Texas-fylki sem réð hana sem bókara. Hún á allt að 10 ára fangelsisdóm yfir höfði sér, að því er kemur fram í frétt Bloomberg.
Chalmers nýtti sér stöðu sína hjá góðgerðarsamtökum og nokkrum fyrirtækjum sem fjölskylda Jim Collins, fyrrum þingmanns sem lést árið 1989, til að millifæra fjármuni á eigin reikning með því að skrifa sér sviksamlega 175 ávísanir frá árinu 2012. Bókarinn setti allt að 25 milljónir dala í eigið byggingarfyrirtæki, að því er kemur fram í gögnum málsins.
„Chalmers misnotaði ekki aðeins traust fjölskyldunnar heldur stal hún einnig milljónum dala frá góðgerðarsamtökum sem stuðla að betra lífi og heilsu margra sem þurfa á aðstoð að halda í Dallas-samfélaginu,“ sagði lögmaður fjölskyldunnar.
Fjölskyldan uppgötvaði fjársvik Chalmers árið 2021 eftir að Dorothy Dann Collins Tolbert, eiginkona framangreinds Jim Collins, lést. Hún átti og stýrði áður umræddum fjölskyldufyrirtækjum. Þegar erfingjar hennar tóku við rekstri fyrirtækjanna urðu þeir varir við „nokkur rauð flögg“ á bankareikningum þeirra.
Áður en hann tók sæti í fulltrúadeild þingsins stýrði Jim Collins tryggingafélaginu Fidelity Union Life Insurance Co., sem var stofnað af föður hans, um skeið. Allianz eignaðist Fidelity Union árið 1979. Tvö af börnum hans og Torbert stofnuðu vogunarsjóðinn Collins Capital Investments.