Kedric Meredith, aðstoðarforstjóri fyrirtækjasviðs matvælatæknifyrirtækisins John Bean Technologies, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið muni ekki tjá sig frekar um yfirtökutilboðið í Marel að svo stöddu.
Marel greindi frá óskuldbindandi viljayfirlýsingu um mögulegt yfirtökutilboð í félagið aðfaranótt föstudags. Um tíuleytið á föstudeginum greindi Marel frá því að JBT væri aðilinn á bak við tilboðið.
JBT, sem er skráð í Kauphöllina í New York, sendi síðan frá sér tilkynningu klukkan 14:35 að íslenskum tíma (9:35 EST) á föstudaginn þar sem félagið staðfesti fyrirhugaða tilboðið en sagði viðræður ekki langt komnar.
„Viðræður eru enn á frumstigi og því engin leið að segja til um hvort þær muni leiða til formlegs tilboðs,“ segir í tilkynningu félagsins.
Með mikið handbært fé og yfirtökur í huga
Í maímánuði seldi JBT dótturfyrirtæki sitt AeroTech til Oshkosh Corporation fyrir 800 milljónir dala og var kaupverðið greitt að fullu á þriðja ársfjórðungi.
Samsvarar kaupverðið um 110 milljörðum króna á gengi dagsins í dag en í uppgjöri félagsins fyrir þriðja ársfjórðung var hagnaður af sölunni bókfærður sem 588 milljónir dala fyrir skatt þann 1. ágúst 2023, sem samsvarar ríflega 81 milljarði króna.
Samkvæmt fjárfestakynningu JBT í nóvembermánuði stefnir félagið á að nýta söluandvirðið í yfirtökur og samruna. Segir að félagið sé að skoða bæði yfirtökur á minni samkeppnisaðilum (e. Bolt on Acquisition) sem og stærri yfirtökur og samruna.
Samkvæmt viljayfirlýsingu myndi JBT greiða 25% í reiðufé og 75% í formi eigin bréfa fyrir Marel og hluthafar Marel myndu þá eignast 36% hlut.
Fyrirhugað kaupverð er 3,15 evrur á hlut eða 482 krónur miðað við skiptigengi á 153,3 ISK/EUR.
Miðað við kaupverðið er virði Marels 371 milljarðar sem er töluvert hærra en núverandi markaðsvirði þrátt fyrir gengishækkun föstudagsins.
Söluhagnaður JBT af Aerotech nær því ekki upp í 25% af kaupverðinu sem félagið myndi þurfa að greiða í reiðufé verði af kaupunum.