Marel hefur tilkynnt um að John Bean Technologies Corporation (JBT) sé aðilinn á bak við óskuldbindandi viljayfirlýsinguna um mögulegt yfirtökutilboð í félagið.
Fyrirhugað verð samkvæmt óskuldbindandi viljayfirlýsingunni er 3,15 evrur á hlut (482 krónur á hlut miðað við skiptigengi ISK/EUR 153,3), fyrir allt útistandandi hlutafé í Marel.
Þá er tillaga JBT að verðmati byggð á þeirri forsendu að útistandandi hlutir séu 754 milljónir og staða áhvílandi lána nemi 827 milljónum evra.
Óskuldbindandi viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að 25% af endurgjaldinu verði greitt með reiðufé og 75% verði í formi hlutabréfa í JBT. Það kemur jafnframt fram að hluthafar Marel muni eiga u.þ.b. 36% af hlutum í JBT eftir möguleg viðskipti.
„Engar frekari upplýsingar koma fram eða liggja fyrir um gengi hluta í JBT eða hugsanlegt skiptigengi,“ segir í tilkynningu Marels.
Í tilkynningu sem Marel sendi frá sér í morgun, þar sem greint var frá óskuldbindandi viljayfirlýsingunni án þess að greina hver stæði á bak við hana, kom fram að Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut, hefði lagt fram óafturkallanlega yfirlýsingu um að samþykkja tilboðið verði það lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna.
Þurfa samþykki 90% hluthafa Marels
Óskuldbindandi viljayfirlýsing JBT tekur fram að valfrjálst yfirtökutilboð verði aðeins sent að undangenginni ásættanlegri niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og stjórnarsamþykki JBT.
Mögulegt yfirtökutilboð er einnig háð fyrirvörum um samþykki viðeigandi eftirlitsaðila, samþykki hluthafa JBT og að a.m.k. 90% hluthafa Marels samþykki tilboðið.
Hlutabréfaverð Marels rauk upp í fyrstu viðskiptum í dag og stóð í 450 krónum á hlut áður en Kauphöllin stöðvaði viðskipti með bréf félagsins. Til samanburðar var dagslokagengi Marels í gær 350 krónur á hlut. Gengi félagsins hafði því hækkað um 28,6% í morgun.
Bandaríska fyrirtækið JBT er leiðandi í matvælaiðnaði á heimsvísu en félagið er með höfuðstöðvar í Chicago borg í Illinois ríki. Um 5.200 manns starfa hjá JBT og er félagið skráð í Kauphöllina í New York.
Gengi JBT hefur hækkað um 0,4% í framvirkum samningum fyrir lokuðum markaði í morgun en Kauphöllin í New York opnar klukkan hálf tvö að íslenskum tíma.