Bandaríska fatafyrirtækið JCPenney hefur sameinast samstæðunni Sparc Group, sem á meðal annars Aéropostale og Brooks Brothers, til að mynda nýtt fatafélag undir heitinu Catalyst Brands.

Verslunarkeðjan tilkynnti þetta í gær og segir að með sameiningunni munu öll vörumerki fyrirtækisins renna undir sama hatt, þar á meðal Eddie Bauer, Lucky Brand og Nautica.

Þá mun Catalyst Brands hefja rekstur með fleiri en 1.800 verslanir, 60 þúsund starfsmenn og einn milljarð dala í lausafé.

Marc Rosen, forstjóri JCPenney, mun stýra nýja fyrirtækinu og hefur þá fyrrum verslunarstjóri Walmart, Kevin Harper, verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Marisa Thalberg, fyrrum markaðs- og vörumerkjastjóri JCPenney, verður markaðsfulltrúi.