Bandarísku flugfélögin JetBlue Airways og United Airlines hafa verið í viðræðum um mögulegt samstarf samkvæmt fréttaflutningi Reuters. Samkvæmt heimildum hafa flugfélögin ekki enn útkljáð öll smáatriðin og segja að viðræður gætu breyst.
JetBlue hefur verið að leitast eftir samstarfi og má þar nefna Northeast Alliance-samstarfið sem var áætlað með American Airlines. Það samstarf bar hins vegar ekki árangur eftir að alríkisdómari kom í veg fyrir það.
Fyrirhugaða samstarfið milli JetBlue og United verður hins vegar frábrugðið Northeast Alliance en flugfélögin hyggjast ekki samræma flugáætlanir og verðlagningu. Hins vegar vilja þau veita viðskiptavinum betri tengingar og bjóða upp á fleiri vildarpunkta.
United hefur ekki viljað tjá sig um samstarfið við fjölmiðla. JetBlue hefur jafnframt átt í miklum erfiðleikum með arðsemi og rekstur eftir Covid og hefur flugfélagið aðeins náð að skila hagnaði í tveimur af síðustu níu ársfjórðungum.