Jón Mýrdal, einn stofnenda veitingastaðarins Kastrup á Hverfisgötu, mun ekki hafa aðkomu að staðnum lengur.
Þetta staðfestir Jón Mýrdal, einn stofnenda staðarins, í pistli á samfélagsmiðlum í dag.
„Kæru vinir, það er því miður ljóst að ég kem ekki lengur til með að hafa aðkomu að Kastrup. Það náðust ekki samningar við skattinn né leigusala,“ segir Jón og bætir við að þó að síðustu vikur hafi verið erfiðar sé hann stoltur af því sem upphaflega hófst í tjaldi á Klapparstíg og þróaðist síðar í vinsælan og metnaðarfullan veitingastað á Hverfisgötu.
Kastrup var stofnaður fyrir fjórum árum af Jóni og Stefáni Melsted. Staðurinn naut fljótt hylli fyrir afslappað andrúmsloft þar sem borin var fram klassísk evrópsk matargerð og góð vín.
„Mig langar að þakka ykkur öllum og sérstaklega þeim fastakúnnum sem komu oft í viku,“ skrifar Jón, sem segist nú horfa fram á veginn og einbeita sér að nýjum verkefnum.
„Í framtíðinni mun bókhald og tölvupóstar verða gerð af fagmönnum,” skrifar hann.
Í byrjun mánaðar var greint frá því að Skatturinn hefði innsiglað veitingastaðinn.
Lögreglan mætti á svæðið og voru kúnnar veitingarstaðarins látnir yfirgefa staðinn umsvifalaust þrátt fyrir að vera enn með mat á diskunum.
Veitingarýni Viðskiptablaðsins hrósaði veitingastaðnum árið 2023 en þar sagði meðal annars að Kastrup höfði fyrst og fremst til fólks með mikinn kaupmátt og þá sérstaklega fólks í sérfræðistörfum hjá íslenska ríkinu.
„Sæmilega sósað fólk úr eignastýringum bankanna er fyrirferðarmikið meðal gesta í hádeginu. Verðið á Kastrup er með þeim hætti að sérfræðingar hjá hinu opinbera eru algengir gestir ásamt fulltrúum hulduheima Heimildarinnar í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Á Kastrup er hátt til lofts og sæmilega vítt til veggja. Það hentar vel þeim sem eru þaulsetnir við hádegisborðið síðari hluta vikunnar,“ sagði í rýni Viðskiptablaðsins.