Joe Ísland ehf., rekstraraðili Joe & The Juice á Íslandi, hagnaðist um 33 milljónir króna árið 2024 samanborið við 4 milljóna hagnað árið áður.

Tekjur félagsins, sem rekur 8 veitingastaði, drógust saman um 7,9% milli ára og námu 971 milljón króna í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 11,4% og námu tæplega 85 milljónum króna. Ársverk voru 33 samanborið við 36 árið áður.

Eignir félagsins námu 223 milljónum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 60 milljónir króna. Joe Ísland ehf. er í eigu Eyju fjárfestingafélags VI ehf., sem er í eigu hjónanna Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur.

Magnús Gunnarsson er framkvæmdastjóri Joe & The Juice á Íslandi.

Lykiltölur / Joe Ísland ehf.

2024 2023
Tekjur 971 1.054
EBITDA 85 76
Afkoma 33 4
Eignir 223 204
Eigið fé 60 27
Ársverk 33 36

Joe & The Juice keðjan hagnast í fyrsta sinn í sjö ár

Danska samlokukeðjan Joe & The Juice, sem var stofnuð ári 2002, skilaði 143 milljóna danskra króna hagnaði árið 2024, sem samsvarar um 2,8 milljörðum króna.

Í umfjöllun viðskiptamiðilsins Børsen kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn frá árinu 2017 sem félagið er rekið með hagnaði. Samtals tapaði félagið 1.859 milljónum danskra króna, eða yfir 36 milljörðum íslenskra króna, á tímabilinu 2018-2023.

Tekjur danska félagsins jukust um 17% milli ára sem er að stórum hluta rakið til þess að það opnaði 33 nýja veitingastaði. Í árslok 2024 rak Joe & The Juice 397 veitingastaði en félagið stefnir að því að reka þúsund staði árið 2028.

Bandaríski framtakssjóðurinn General Atlantic keypti ráðandi hlut í Joe & The Juice árið 2023 og á í dag 90% hlut í félaginu.