Menntatæknifyrirtækið Evolytes hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár en fyrirtækið býður upp á stærðfræðinámskerfi sem sameinar námsbók, námsleik og upplýsingakerfi fyrir kennara þar sem gagnadrifin greining er nýtt til þess að veita börnum einstaklingsmiðað námsefni í rauntíma.
Í dag er kerfið í notkun í nær 80% allra skóla á landinu, auk þess sem kerfið hefur verið tekið upp víða erlendis.
„Það er svona okkar markmið að breyta því hvernig börn læra, það er að segja að ýta undir þennan náttúrulega áhugahvata og reyna að viðhalda honum lengur,“ segir Íris E. Gísladóttir, rekstrarstjóri Evolytes á Íslandi, en hún stofnaði fyrirtækið ásamt Mathieu G. Skúlasyni árið 2017.
„Við fengum ótrúlega góð við brögð frá skólakerfinu sem kom okkur á óvart. Það var búið að ráðleggja okkur gegn því að fara inn í skólakerfið þar sem skólarnir hafa nánast ekkert fjármagn til námsgagnakaupa utan þess sem ríkið veitir. Það má í rauninni segja að það er bara verið að grafa eftir fjármagni því kennarar vilja svo ólmir fá svona tól því að það virkar mjög vel inn í kennslustofuna.“
Mikill skortur sé þó á fjármagni innan skólanna og að sögn Írisar má segja að algjör ríkisrekin einokun ríki á námsgagnamarkaði, sem eigi rætur sínar að rekja til ársins 1936. Menntamálastofnun sér samkvæmt lögum um að sjá öllum grunnskólanemendum fyrir námsgögnum og fara til þess verkefnis 380 milljónir á ári. Þar fyrir utan fái sveitarfélögin, sem sjá um almennan rekstur skóla, aðeins 1.500 krónur á nemanda í gegnum Námsgagnasjóð.
Þrátt fyrir að ríkið eigi að sjá um námsgögnin hafa mörg sveitarfélög fundið sig knúin til þess að grípa inn í, þó mismikið.
„Það er rosalega vont að horfa upp á þessa þróun vegna þess að þá eru börn með misjafnan aðgang að námsefni og hvernig kennslu þau fá miðað við hvar þau eru fædd, og það er ekki það sem við viljum sjá í íslensku samfélagi. Skólakerfið hefur verið þetta jöfnunartól en að öllu óbreyttu er líklegt að svo verði ekki til lengdar,“ segir Íris.
„Það má alveg deila um það hvort við munum nokkurn tímann, með þessu fyrirkomulagi og þessu fjármagni, þó að það yrði tvöfaldað eða þrefaldað, virkilega geta staðið að framúrskarandi námefnisgerð í þessu formi.“