Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðasta tölublaði hafa íslenskir stjórnmálaflokkar fengið samtals úthlutað tæplega 10 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010-2024.

Fjárframlög til stjórnmálaflokka komu til umræðu meðal þingmanna í þar síðustu viku eftir að Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt því fram í ræðustól á Alþingi að fráfarandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, ætli að hanga saman fram yfir 25. janúar á næsta ári til þess að þiggja hið árlega framlag til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði. Framlagið er greitt út 25. janúar ár hvert. Framlag næsta árs lækkar úr 692,2 milljónum niður í 622 milljónir þar sem kjörtímabilinu lýkur formlega 25. september 2025.

Óhætt er að segja að kenning Jóhanns Páls, sem átti eftir að reynast röng, hafi vakið litla lukku hjá Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, sem vísaði henni til föðurhúsanna. „Góðar samsæriskenningar geta verið safaríkar og spennandi en verra er þegar þær standast ekki minnstu skoðun,“ skrifaði Hildur í aðsendri grein á Vísi.

Hún sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa lengi talað fyrir breytingum á fjármögnun stjórnmálaflokka, þar á meðal algjöru afnámi opinberra styrkja og benti á að   stjórnmálaflokkum væru settar þröngar skorður við að fjármagna sig upp á eigin spýtur.

Lögum samkvæmt mega flokkarnir aðeins taka við framlögum upp á 550 þúsund krónur frá lögráða einstaklingum á ári hverju. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálaflokks er þó heimilt að taka á móti framlögum umfram þetta frá einstaklingum, eða sem nemur að hámarki 100 þúsund krónum. Sömu reglur gilda um framlög lögaðila til stjórnmálaflokka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.