Jólagarðurinn ehf., félag utan um rekstur Jólahússins á Akureyri sem selur ýmsa gjafavöru tengda jólunum, hagnaðist um 2,4 milljónir króna á síðasta ári eftir að hafa verið rekið með 9,4 milljóna króna tapi árið áður.
Félagið seldi jólavarning fyrir 158 milljónir króna en árið áður var salan 143 milljónir. Á sama tíma og kostnaðaverð seldra vala dróst saman um 10 milljónir á milli ára jókst launakostnaður um 12 milljónir.
Ef frá er talið rekstrarárið 2022 hefur Jólagarðurinn verið rekinn með samfelldum hagnaði frá og með árinu 2016.
Jólagarðurinn hefur verið opinn í rúman aldarfjórðung og hefur allt frá upphafi verið í eigu hjónanna Benedikts Inga Grétarssonar og Ragnheiðar Heiðarsdóttur. Jólahúsið er í Sveinsbæ í Eyjafjarðarsveit sem er í um átta kílómetra fjarlægð frá miðbæ Akureyrar.
Þrátt fyrir að sérhæfa sig í jólunum er opið í Jólagarðinum allt árið um kring og er hann vinsæll áfangastaður ferðamanna, innlendra sem erlendra, sem eiga leið um Eyjafjörðinn.