Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar fjárfestingarfélags, segir að það sé ekki nokkur vafi að innleiðing evru myndi auka hagsæld í landinu og gjörbreyta landslagi fyrir erlenda fjárfestingu á Íslandi. Þetta kemur fram í ávarpi hans í nýrri ársskýrslu Skeljar.

Í ávarpi sínu á aðalfundi Skeljar árið 2023 sagði Jón Ásgeir að íslenska krónan sé „versti óvinur atvinnulífsins og fólksins í landinu“. Hún sé ástæðan fyrir því að fjárfesting erlendra aðila á Íslandi sé mun minni en á hinum Norðurlöndunum.

Að þessu sinni gerir hann áformaða þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu í Evrópusambandið að umræðuefni og segir að áhugavert verði að sjá hvort ríkisstjórnin muni standa við kosningaloforð sitt.

„Þar er á ferðinni stórt mál fyrir framtíð Íslands. Hvað sem hver segir þá er lengri röð inn í sambandið heldur en út úr því,“ segir Jón Ásgeir.

„Bretar tóku þá ákvörðun að yfirgefa sambandið, en augljóst er af breskri þjóðmálaumræðu að eftirsjáin af þeirri ákvörðun eykst með hverjum mánuði sem líður.“

Horfa ætti til Írlands ef þjóðin hafnar ESB

Hann segir að með þeirri erlendu fjárfestingu, sem hann telur að upptaka evru myndi hafa í för með sér, kæmi ekki einungis fjármagn heldur einnig þekking á hinum ýmsu geirum sem sé ekki endilega til staðar í íslensku viðskiptalífi í dag.

„Ef þjóðin ákveður að ganga ekki í Evrópusambandið mætti sömuleiðis hugsa sér að það gæti verið heillaskref fyrir þjóðina að fara sambærilega leið og Írland og gera rekstrarumhverfi á Íslandi heillandi kost fyrir erlend stórfyrirtæki - mögulega með skattaívilnun vegna nýfjárfestinga hérlendis.“