Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar fjárfestingarfélags, segir ástæðuna fyrir því að fjárfesting erlendra aðila á Íslandi sé mun minni en á hinum Norðurlöndunum sé einkum vegna eins þáttar; íslensku krónunnar.

„Það er ekki vegna þess að það sé skortur á afli, þekkingu, hugviti eða dugnaði í íslensku atvinnulífi, heldur er skýringuna að finna í íslensku krónunni, sem er versti óvinur atvinnulífsins og fólksins í landinu - en meira um það síðar,“ skrifar Jón Ásgeir í nýrri ársskýrslu Skeljar.

Hann segist vonast til þess að Skel geti laðað að sér innlenda sem erlenda fjárfesta „sem geta fjárfest í hinum ýmsu greinum íslensks atvinnulífs í gegnum Skel“. Hins vegar sé það að hafa fjárfestingarfélag skráð á Íslandi tilraun sem enn eigi eftir að sjá hvort eigi rétt á sér.

Fullyrðir að náðst hafi að hrista af sofandaháttinn

Jón Ásgeir segir að árið 2022 hafi verið viðburðaríkt fyrir Skel fjárfestingafélag. Það hafi komist í mark með þá vegferð sem hófst árið 2019 þegar félaginu var skipt upp í þrjú rekstrarfélög. Á sama tíma hafi Skel orðið fullburða fjárfestingafélag.

„Þegar litið er til baka er ljóst að vegferðin var viðameiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Með mikilli þrautseigju starfsmanna náðist að skera á samofna strengi milli þeirra. Um mitt ár voru félögin farin að geta horft fram á veginn með skýra stefnu að verða hvert og eitt best á sínu sviði.

Ég leyfi mér að fullyrða að vel hafi tekist til og náðst hafi að hrista sofandaháttinn af þeim, sem einkenndi þessar rekstrareiningar að ákveðnu leyti meðan þær voru allar samofnar.“

Skel fjárfestingarfélag hagnaðist um 17,5 milljarða króna á árinu 2022, samanborið við 6,9 milljarða árið 2021. Aukninguna má fyrst og fremst rekja til hagnaðar vegna uppfærðs verðmats á óskráðum fjárfestingareignum félagsins sem nemur samtals 9,8 milljörðum króna.

Jón Ásgeir lýsir því að breytingin á félaginu úr rekstrarfélagi í fjárfestingarfélag hafi leitt af sér breytingar á framsetningu ársreikningsins.

„Með þessum breytingum eru verðmæti eigna sýnilegri gagnvart fjárfestum en áður var. Með endurmati eigna og innleystum hagnaði var hagnaður ársins 17,5 milljarðar sem telst met afkoma í 95 ára sögu félagsins. Hluti af þeim hagnaði eru verðmæti sem hafa verið dulin í bókum félagsins á liðnum árum.“

Tækifæri með samþjöppun samkeppnisaðila VÍS

Jón Ásgeir segir að fjárfestingastarfsemi móðurfélagsins leiti fjárfestinga í þeim tilgangi að byggja ofan á núverandi eignir með það að markmiði að auka arðsemi þeirra (e. buy and build). „Ég tel að félaginu hafi gengið vel í þeim efnum frá því umbreytingarnar hófust“

Í ávarpi sínu fer hann m.a. yfir kaup Skeljar og dótturfélaga á Löðri, Lyfjavali og Kletti. Þá er Skel komin með nærri 9% hlut í VÍS.

„Fjárfesting í VÍS er studd þeirri þekkingu sem yfirstjórn félagsins hefur á slíkum rekstri. Ég tel að mikilvæg tækifæri verði til á þeim markaði við aukna samþjöppun samkeppnisaðila VÍS á markaði.“