Jón Björnsson, sem lét nýverið af störfum sem forstjóri Origo, hefur verið ráðinn forstjóri Veritas, móðurfélags félaganna Vistor, Distica, Artasan, Medor og Stoð sem selja vörur og þjónustu til heilbrigðisgeirans. Jón mun hefja störf í lok ágúst, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Jón Björnsson, sem lét nýverið af störfum sem forstjóri Origo, hefur verið ráðinn forstjóri Veritas, móðurfélags félaganna Vistor, Distica, Artasan, Medor og Stoð sem selja vörur og þjónustu til heilbrigðisgeirans. Jón mun hefja störf í lok ágúst, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Hrund Rudolfsdóttir var áður forstjóri Veritas-samstæðunnar í rúman áratug en lét af störfum síðasta haust.

Þóranna Jónsdóttir tók tímabundið sem stöðu forstjóra Veritas og mun hún gegna stöðunni þar til Jón tekur við. Þóranna mun jafnframt sitja áfram í stjórn Veritas auk þess að sinna öðrum verkefnum fyrir samstæðuna.

Jón gegndi síðast starfi forstjóra Origo frá árinu 2020 og leiddi upplýsingatæknifyrirtækið m.a. í gegnum Tempo-söluna og afskráningu félagsins úr Kauphöllinni. Hann hefur áður gegnt forstjórastarfi bæði hjá Festi og Krónunni, Orf Líftækni, Magasin du Nord og Högum.

Jón situr m.a. í stjórnum Boozt.com, Origo Lausna og Dropp. Hann hefur jafnframt setið í stjórn Artasan, eins af fyrirtækjum Veritas, frá 2023.

„Ég hlakka til að ganga til liðs við Veritas og taka þátt í frekari uppbyggingu á fyrirtækjum félagsins. Það eru uppbyggingarár framundan og spennandi verkefni er snúa bæði að innviðum félaganna sem og frekari nýting tækifæra sem stafrænni heimur gefur okkur“ segir Jón.

Veritas-samstæðan velti tæpum 34 milljörðum króna árið 2023 og hagnaðist um 1,4 milljarða króna. Stöðugildi hjá samstæðunni eru um 260.

„Það er mikill fengur að fá Jón til liðs við samstæðuna nú þegar stærsta þróunar og fjárfestingaverkefni samstæðunnar er framundan“ segir Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður. „Við Jón höfum átt farsælt samstarf í gegnum tíðina og ég tel að hans hæfni og reynsla sé að koma inn á góðum tíma og muni nýtast okkur afar vel“.