Vatnsfyrirtækið Icelandic Glacial, sem Jón Ólafsson stofnaði, og Rolling Stones endurnýjuðu á dögunum samstarfssamning vegna tónleikaferðalags rokkhljómsveitarinnar sem hófst í mánuðinum.

Þetta er fimmta árið í röð sem aðilarnir starfa saman. Markmiðið með samstarfinu er að lágmarka kolefnisspor vegna tónleikaferðalags rokkhljómsveitarinnar í Evrópu.

„Við erum himinlifandi að vinna með Rolling Stones fimmta árið í röð í að draga úr kolefnisfótsporti tónleikaferðalagsins,“ segir Jón Ólafsson í tilkynningu.

Viðskiptablaðið sagði frá því í fyrra þegar Jón var staddur á ferðalagi með hljómsveitinni. Hann birti mynd af sér í einkaþotu rokkstjarnanna á Facebook í lok síðasta árs.

„Við hlökkum til samstarfsins með Icelandic Glacial og alþjóðlegu dreifingaraðilum þeirra fyrir „Sixty“ tónleikaferðalagið og berum mikla virðingu fyrir starfsemi þeirra í þágu umhverfismála,“ er haft eftir hljómsveitinni.