Á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) sem fór fram í síðustu viku var Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, kjörinn formaður stjórnar samtakanna. Jón Guðni tekur við hlutverkinu af Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, sem hefur gegnt formennsku undanfarin tvö ár en Benedikt mun áfram sitja í stjórn SFF.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SFF.
„Ég er afar spenntur fyrir því að vinna með starfsfólki SFF að enn frekar framgangi fjármálaþjónustu á Íslandi," segir Jón Guðni.
Þá var Þorleifur Stefán Björnsson, framkvæmdastjóri T-plús, einnig kjörinn nýr inn í stjórnina en aðrir stjórnarmenn eru Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, og Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaganna.
Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, og Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Arctica Finance, sitja í varastjórn.