„Það hljóta að vera undarlegar sakir að ákæra menn fyrir að telja ekki fram tap, peninga sem menn aldrei fengu, aldrei vissu af og höfðu engan ráðstöfunarrétt yfir. Þetta voru kallaðar galdrabrennur hér áður fyrr,“ segir Jón Ingi Gíslason. Hann var seint í apríl ákærður vegna meiriháttar brota á skattalögum, vantalið fjármagnstekjur sínar um 110,5 milljónir króna og stungið 11 milljónum króna undan skatti. Málið snýst um uppgjör á 44 framvirkum gjaldmiðlasamningum sem hann gerði við Glitni.

Mál embættis sérstaks saksóknara gegn honum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.

Jón Ingi hefur í á annað ár verið formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík. DV greindi frá því í gær að Jóni Ingi hafi stigið til hliðar hjá Framsóknarfélaginu. Jón Ingi segir í samtali við vb.is ekki vilja trufla félagsstarf Framsóknarfélagsins í Reykjavík og því dregið sig í hlé á meðan hann vinni að því að hreinsa sig af ásökum embættis sérstaks saksóknara.

Jón Ingi segir málið allt undarlegt og skiilji það enginn sem hann hafi hitt.

„Það eru engar vantaldar fjármagnstekjur. Deilan snýst um 11 milljónir, sem ég hef aldrei fengið. Það er skrýtið. Enginn sem ég hef hitt skilur þetta heldur,“ segir Jón Ingi og fullyrðir að hann hafi ekki gert þá samninga sem hann er ákærður fyrir heldur bankinn sem hann átti í viðskiptum við.