Jón Ólafs­son og Kristján Ólafs­son hafa selt stóran hlut úr vatns­fyrir­tækinu Icelandic Wa­ter Holdings til er­lendra fjár­festa. Þetta kemur fram í Morgun­blaðinu í morgun.

Feðgarnir hafa undirritað kaupsamningin en gengið verður frá kaupunum 22. ágúst.

Stórauka framleiðslugetuna

Jón segir í sam­tali við Morgun­blaðið að kaup­verðið sé trúnaðar­mál og sömu­leiðis hver hlutur er­lendu fjár­festanna verður í fé­laginu.

Langur að­dragandi er að kaupunum en hann hafi hitt fjár­festanna í Frakk­landi 2019. Á­form þeirra er stór­auka fram­leiðslu­getu fyrir­tækisins á Hlíðar­enda í Ölfusi með því að reisa nokkrar verk­smiðjur til við­bótar.

Á aðalfundi Icelandic Water Holdings hf. sem haldinn var 12. júní sl. voru gerðar breytingar á stjórn félagsins.

Þá var sænski fjárfestirinn Johan Eric Dennelind, fyrrum forstjóri fjarskiptafélaganna du og Telia Company, kjörinn stjórnarformaður í stað Jóns Ólafssonar.

Á fundinum voru einnig gerðar breytingar á prókúruhöfum félagsins þannig að Johan Eric Dennelind og Peter Sihao Zhang eru nú prókúruhafar, ásamt Raymond Kyaw Thu, í stað Jóns Ólafssonar stofnanda og Kristjáns Ólafssonar, sonar Jóns.

Meðal annarra stjórnarmanna eru þeir August Daniel Worrell og Jeffrey Harlan Gordon, frá Blackrock, og Yu Chuan Liang og Tony Shao Liang, frá ND Capital Asia.

Icelandic Water Holdings er félag utan um vatnsframleiðslu í Ölfusi undir merkjum Icelandic Glacial.

Félagið tapaði rúmlega 21 milljón dala árið 2021, eða sem nemur tæplega 2,8 milljörðum króna miðað við gengi Bandaríkjadals á lokadegi þess árs. Árið 2020 nam tap félagsins tæplega 19 milljónum dala.