Jón Ólafur Halldórsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til formanns Samtaka atvinnulífsins en aðalfundur samtakanna verður haldinn 15. maí nk. Tilkynnt var í morgun að Eyjólfur Árni Rafnsson verði ekki í framboði til formanns SA á aðalfundi samtakanna í maí.
Jón Ólafur hefur verið í framkvæmdastjórn samtakanna frá árinu 2018, hefur setið í stjórn verslunar og þjónustu frá árinu 2017 og var jafnframt formaður SVÞ frá 2019 til 2025.
Hann er véltæknifræðingur að mennt en hefur einnig lokið MBA námi frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál fyrirtækja og hefur þar að auki lokið MS námi í viðskiptafræði frá sama skóla með áherslu á stefnumörkun og stjórnun fyrirtækja.
Jón Ólafur var forstjóri Olís í sjö ár og starfaði hjá félaginu í 27 ár en frá árinu 2021 hefur Jón Ólafur sinnt ýmsum ráðgjafar- og stjórnarstörfum.
„Með því að bjóða mig fram sem formaður Samtaka atvinnulífsins er ég að bjóða fram krafta mína í þágu verðmætasköpunar, viðskiptafrelsis, einkaframtaks og alþjóðaviðskipta sem allt eru undirstöðuþættir velgengni í íslensku atvinnulífi. Samtök atvinnulífsins eru málsvari fyrirtækja og hlutverk þeirra er að hafa mótandi áhrif á starfsumhverfi atvinnulífsins, stuðla að samkeppnishæfum og arðsömum atvinnurekstri. Eitt af meginverkefnum samtakanna eru samskipti við stéttarfélög og gerð kjarasamninga fyrir hönd aðildarfyrirtækja en ég hef um árabil verið talsmaður þess að forsvarsmenn fyrirtækja taki virkan þátt í þeim,“ segir Jón Ólafur.