Bpowell ehf., félag í eigu Jóns Þórs Gunnarssonar, forstjóra Kaldalóns, keypti í morgun 1.250.000 hluti í fasteignafélaginu.
Gengið í viðskiptunum var 26,2 krónur sem samsvarar um 32,75 milljónum króna. Mun það vera í samræmi við dagslokagengi Kaldalóns á föstudaginn.
Samkvæmt kauphallartilkynningu frá félaginu ákvað Jón Þór einnig að selja áskriftarréttindi að 6 milljón hlutum í morgun.
Samkvæmt ársreikningi 2023 gaf Kaldalón út áskriftarréttindi að 18.000.000 hlutum að nafnvirði með gildistíma 6 ár, sem forstjóri félagsins keypti árið 2021.
Stjórn fasteignafélagsins Kaldalóns samþykkti í júlí 2023 að veita forstjóra og öðrum starfsmönnum félagsins kauprétt að allt að 222.500.000 hlutum í félaginu, sem samsvaraði um 2% af hlutafé Kaldalóns þegar kaupréttarkerfið var samþykkt.
Um 22.250.000 hluti er að ræða í dag eftir öfuga skiptingu hluta (e. reverse stock split) félagsins í nóvember 2023.
Jóni ber að halda eftir hlutum sem nema 50% af fjárhæð hreins hagnaðar af nýttum kaupréttum, þegar skattar og allur kostnaður hafa verið dregnir frá, fram að starfslokum hjá félaginu eða dótturfélagi þess.
Honum er heimilt er að nýta kaupréttina eftir þrjú ár að einum þriðja, annan þriðjung eftir fjögur ár og síðasta þriðjunginn eftir fimm ár.