Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns, og Högni Hjálmtýr Kristjánsson, forstöðumaður eignaumsýslu og fjármála, keyptu í morgun hlutabréf í fasteignafélaginu, samkvæmt tilkynningum til Kauphallarinnar.
Jón Þór, sem tók við sem forstjóri Kaldalóns um mitt ár 2021, keypti 2 milljónir hluta í Kaldalóni fyrir 3,1 milljón króna í morgun á genginu 1,57 krónur á hlut. Jón Þór á nú 6,7 milljónir hluta í félaginu að markaðsvirði tæplega 11 milljónir króna en hann átti fyrir 4,7 milljónir hluti auk áskriftarréttinda.
Högni, sem hóf einnig störf hjá Kaldalóni sumarið 2021, keypti eina milljón hluta í fasteignafélaginu fyrir 1,6 milljónir króna á genginu 1,6 krónur á hlut.
Kaldalón birti ársuppgjör í gærkvöldi. Fasteingafélagið hagnaðist um tæplega 2,1 milljarð króna árið 2022, samanborið við 1,3 milljarða árið áður. Fasteignir í eigu Kaldalóns rúmlega tvöfölduðust í fermetrum talið.