Dreisam ehf., í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar fjárfestis, hefur festu kaup á 354 fermetra þakíbúð við Austurhöfn, við hlið Hörpu. Íbúðin er stærsta íbúðin af 71 sem byggðar hafa verið við Austurhöfn og hefur verið fullyrt að sé dýrasta íbúð Íslandssögunnar. Íbúðin er seld fokheld, en Morgunblaðið sagði frá því á síðasta ári að uppsett verð væri hálfur milljarður króna. Miðað við það er fermetraverðið um 1,4 milljónir króna.
Þakíbúðin við Austurhöfn er horníbúð með útsýni yfir Reykjavíkurhöfn og sundin. Íbúðinni fylgja tvennar svalir og tvö bílastæði en innangengt er í íbúðina beint úr lyftu. Þó hún sé seld fokheld er miðað við að í henni séu sex herbergi og fjögur baðherbergi.
„Gluggar til þriggja átta fylla íbúðina mjúkri, náttúrulegri birtu. Stórar svalir bjóða upp á óviðjafnanlegt útsýni yfir hafið og lifandi höfnina og aðrar horfa yfir garðinn," segir um íbúðina í kynningarefni frá Austurhöfn.
Næst stærsta íbúðin í Austurhöfn, við hlið hinnar nýseldu íbúðar, er 337 fermetrar. Sú íbúð var seld fokheld á 480 milljónir króna fyrir áramót til félagsins K&F ehf. , sem er í eigu Kesara Margrétar Jónsson, prófessors í grasa- og plöntuerfðafræði.
Jónas hefur áður fjárfest í þakíbúðum í miðbænum. Árið 2015 greindi Morgunblaðið frá því að Jónas og viðskiptafélagi hans Edward Mac Gillivray Schmidt hefðu keypt þrjár efstu hæðirnar á Lindargötu 37, ellefu hæða íbúðaturni í Skuggahverfinu í Reykjavík sem þá voru taldar þær dýrustu sem selst hefðu hér á landi.
Samkvæmt söluvef Austurhafnar eru einungis níu íbúðir óseldar. Kaupverð íbúðanna nemur samanlagt vel yfir tíu milljörðum króna.
Mikið hefur verið lagt í íbúðirnar. Íbúðakaupendum býðst hönnunarráðgjöf frá Stúdíó Homestead og Nordic Smartspaces við útfærslu innréttinga, húsgagnaval og útfærslu snjallheimilisins. Þá býður i8 gallerí fram ráðgjöf við val á listmunum í íbúðirnar. Sérstakur þjónustufulltrúi Austurhafnar er til staðar til eftirlits og aðstoðar við íbúana, sem geta einnig nýtt sér ýmsa sérþjónustu ERT Concierge, allt frá gæludýrapössun til veisluþjónustu. Auk þess geta íbúar nýtt sér þjónustu hins fimm stjörnu Marriott Edition hótels sem opnaði nýlega við Austurhöfn.