Nýtt fyrirtæki, Jörfi ehf. pípulagna- og véltækniþjónusta, hefur tekið til starfa í nýju 550 fermetra húsnæði við Nesflóa 1 í Grænu iðngörðunum á Akranesi. Fyrirtækið veitir alhliða pípulagnaþjónustu ásamt véltæknilegri þjónustu og ráðgjöf til viðskiptavina.
Jörfi verður með starfsemi í þremur bilum í húsinu við Nesflóa. Vélaverkstæði verður í einu og fagverslun fyrir iðnaðarmenn og fyrirtæki verður í hinum tveimur bilunum.
Verslunin er í samstarfi við Ísrör og Hringás og mun bjóða upp á breitt úrval af gæðaefni til innan- og utanhússlagna auk ýmissa sérlausna fyrir mannvirkja- og veitugeirann. Ísrör er birgir verslunarinnar og mun sjá um allt efni til utanhússlagna en Hringás er helsti birgir Jörfa í innanhússlögnum, búnaði og sérlausnum.
„Við búum allir að mikilli reynslu á sviði pípulagna, vélvirkjunar og stálsmíði og ætlum okkur að byggja upp stórt og öflugt fyrirtæki á þessu sviði. Þá munum við bjóða upp á alla almenna pípulagnaþjónustu, nýlagnir og viðhald, ásamt því að veita ráðgjöf til viðskiptavina um val á lögnum og búnaði,“ segir Óttar Þór Ágústsson framkvæmdastjóri.
Eigendur og forsvarsmenn Jörfa ehf. eru þeir Óttar Þór Ágústsson, Bjarki Óskarsson og Einar Pálsson. Auk þeirra fer Merkjaklöpp samstæðan með eignarhlut í fyrirtækinu.