Hlutabréf í Bandaríkjunum byrjuðu nokkuð óvænt að hækka um mitt ár 2023 og þurftu allir stóru fjárfestingabankarnir að uppfæra hagspár sínar hægt og rólega.
Marko Kolanovic, aðalmarkaðssérfræðingur JPMorgan Chase, tvíefldist hins vegar í spá sinni um að efnahagskreppa væri handan við hornið og tók stöðutökur samhliða því.
Ekkert lát hefur verið á bolamarkaðinum í Bandaríkjunum hins vegar og eru allar vísitölur í sögulegum hæðum og af þeim sökum ákvað JPMorgan Chase að láta Kolanovic fara seint í gærkvöldi.
Samkvæmt The Wall Journal hefur Kolanovic verið kallaður „Gandalf“ og „hálfur maður – hálfur guð“ af viðskiptafjölmiðlum Bandaríkjanna síðastliðin ár en hann hefur sögulega verið einstaklega lúnkinn á að spá fyrir hvert markaðurinn er að stefna.
Stóra efnahagskreppan kom þó ekki en samkvæmt WSJ spilar einnig inn í að hann lét öll stóru tæknifyrirtækin vera síðustu mánuði en gengi þeirra hefur verið að rjúka upp á við.
Samkvæmt spá greiningardeildar JPMorgan Chase mun S&P 500 vísitalan lækka um 24% fyrir árslok en í síðustu skýrslu sem Kolanovic sem starfsmaður bankans, sem birtist í síðustu viku, varaði hann við því að markaðurinn væri aftengdur raunveruleikanum.
Hlutabréfaverð og efnahagsástandið væri í engu samræmi og minnkandi lausafjárstaða fyrirtækja væri raunverulegt áhyggjuefni.
Samkvæmt WSJ er brottrekstur Kolanovic gott dæmi um hversu erfitt það er að vera bjarndýr í stórum banka sem reynir að hvetja viðskiptavini sína til fjárfestinga. Það hjálpar síðan ekki að vera hávært bjarndýr á miðjum bolamarkaði.