EpiEndo Pharmaceuticals ehf. tapaði 7,7 milljónum evra á síðasta ári, eða sem nemur 1,1 milljarði króna, samanborið við 2,3 milljón evra tap árið áður. Rekstrartekjur félagsins jukust lítillega á milli ára og námu 3,2 milljónum evra.

EpiEndo hefur á undanförnum árum unnið að þróun lyfs við langvinnum lungnasjúkdómum (COPD) sem byggja á hugmyndum og rannsóknum Friðriks Rúnars Garðarssonar læknis og félaga hans á Landspítalanum og Háskóla Íslands um styrkingu á þekjuvef lungna með svokölluðum macroliðum.

EP395, lyfjakandidat EpiEndo, gæti orðið fyrsta íslenska frumlyfið og fyrsta bólgueyðandi lyfið í töfluformi sem hægt er að nota til langtímameðferðar við langvinnri lungnateppu.

Félagið jók hlutafé sitt á síðasta ári um tæplega 12 milljónir evra, eða sem nemur 1,7 milljörðum króna. Til samanburðar jók félagið hlutaféð um 10,9 milljónir evra árið áður. Í lok ársins voru 87 hluthafar í félaginu.

Friðrik Rúnar Garðarsson er stærsti hluthafinn með 21% hlut. ABC Venture ehf. á 14% hlut og EIC Fund, evrópskur fjárfestingasjóður í eigu Evrópusambandsins, á 11% hlut. Sænska fjárfestingafélagið Flerie Invest á 10% hlut og framtakssjóðurinn Iðunn, í rekstri Kviku eignastýringar, á líka 10% hlut.

Fjallað er nánar um EpiEndo í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast veffréttaútgáfu kl. 19.30 í kvöld með því að smella á Blöðin efst á forsíðu vb.is