Alþjóðlega matarsendingarsamsteypan Just Eat Takeaway (JET) íhugar að selja Grubhub, einungis 10 mánuðum eftir að hafa keypt félagið á 7,3 milljarða dali, rúmlega 930 milljarða króna. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Mikill uppgangur var á matarsendingarmarkaði í kórónuveirufaraldrinum. Nú, þegar faraldurinn er á undanhaldi, hefur eftirspurn eftir matarsendingum dregist saman. Þannig varð 5% samdráttur á pöntunum hjá Just Eat í Norður-Ameríku á fyrsta ársfjórðungi. Jafnframt var 1% samdráttur pantana á heimsmarkaði á milli ára.

Jitse Groen, forstjóri og stofnandi JET, segir að fyrirtækið hafi nú þegar fengið ráðgjafa til að hefja formlegt söluferli á Grubhub. Hann bendir þó á að ekki sé víst að salan gangi í gegn. Mikil samkeppni hefur verið á matarsendingarmarkaðnum og fyrirtækin átt erfitt með að ná fram hagnaði í rekstri.

Grubhub var stofnað árið 2004 og er með höfuðstöðvar í Chicago. Félagið var til að byrja með leiðandi á matarsendingarmarkaði í Bandaríkjunum og var sérstaklega vinsælt í New York. Með tíð og tíma komu nýir aðilar á markaðinn eins og Uber og DoorDash sem tóku stóran hluta markaðarins.

JET varð til árið 2020 í gegnum 11,1 milljarða dala samruna breska félagsins Just Eat og hollenska félagsins Takeaway.com. JET er með höfuðstöðvar í Amsterdam, en auk þess að vera móðurfélag Grubhub, Just Eat, og Takeaway.com, heyra fyrirtækin SkipTheDishes og Menulog einnig undir samsteypunni.

Gengi bréfa JET hefur lækkað um 70% síðastliðið ár. Uber hefur auk þess lækkað um 40% og DoorDash um 35%, sem endurspeglar þá erfiðleika sem steðja að fyrirtækjum á þessum markaði.