Nippon Steel og US Steel hafa ákveðið að kæra ákvörðun bandarísku ríkisstjórnarinnar um að stöðva kaup japanska fyrirtækisins á bandaríska stálframleiðandanum. Joe Biden Bandaríkjaforseti tók ákvörðunina um að stöðva söluna rétt fyrir helgi.
Fyrirtækin hafa höfðað mál í Washington DC og segja að ákvörðun yfirvalda hafi verið brot á stjórnarskránni um réttláta málsmeðferð og hafi verið byggð á ólögmætum pólitískum grundvelli.
Nippon og US Steel segja að þessar lagalegu aðgerðir séu nauðsynlegar til að vernda rétt þeirra og til að geta haldið áfram með viðskiptin án pólitískra afskipta.
Ákvörðun forsetans kom í kjölfar margra mánaða endurskoðunar af hálfu bandarísku alríkisnefndarinnar um erlenda fjárfestingu.
Nefndin tilkynnti síðan Biden um að hún væri óviss um það hvort hún ætti að mæla með samningnum eða ekki. Biden, sem hafði verið á móti sölunni, ákvað því að koma í veg fyrir hana.