Segulómunarfyrirtækið Intuens hefur kært tafir landlæknis í máli fyrirtækisins til heilbrigðisráðuneytisins auk þess sem kvörtun hefur verið send á umboðsmann Alþingis. Mál Intuens hefur verið til meðferðar í á annað ár, án endanlegrar niðurstöðu, þar sem landlæknir hefur reynt að hindra innkomu fyrirtækisins.
Stjórnsýslukæran snýr að synjun landlæknis á tilkynningu Intuens um breytingu á rekstri, sem felur í sér skoðanir án tilvísunar. Landlæknir synjaði þeirri tilkynningu fyrr á árinu en ráðuneytið beindi því til embættisins fyrir rúmum tveimur mánuðum að taka málið aftur fyrir, þar sem synjunin var metin ólögmæt.
Í ljósi stjórnarslita er líklegt að kæra Intuens verði ekki tekin fyrir fyrr en nýr heilbrigðisráðherra hefur tekið við.
Kosningarnar fara fram eftir innan við tvær vikur og um þessar mundir mælist Samfylkingin með mest fylgi. Reynist kannanir sannspáar er ekki ólíklegt að Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, verði falið stjórnarmyndunarumboð til að byrja með.
Sjálf hefur Kristrún gefið það út að Alma Möller, sem hefur verið landlæknir allan þann tíma sem mál Intuens hefur verið til meðferðar, sé heilbrigðisráðherraefni flokksins. Verði það raunin mun Alma að öllum líkindum reynast vanhæf í máli Intuens. Þá hefur hún í fyrra starfi lagst gegn aðkomu einkarekinna fyrirtækja í heilbrigðiskerfinu, sem mun að líkindum reynast fyrirtækjum eins og Intuens erfitt í framhaldinu, hvernig sem fer í umræddu máli.
Fjallað er um mál Intuens í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.