Í september auglýsti Fjársýsla ríkisins fyrir hönd Sjúkratrygginga útboð á myndgreiningarþjónustu. Forsvarsmenn Intuens Segulómunar kærðu það útboð og sögðu það sérsniðið að starfandi aðilum á markaði. Útboðsferlinu átti að ljúka í síðustu viku en það var framlengt um viku að beiðni Intuens.

Útboðið var loks stöðvað með ákvörðun kærunefndar útboðsmála í dag. Í ákvörðuninni segir að verulegar líkur hafi verið leiddar að brotum gegn lögum um opinber innkaup við hið kærða útboð.

Ákvörðun kærunefndarinnar er 27 blaðsíður og er þar farið yfir helstu atriði málsins en í grunninn snerist kæran um skilmála í útboðsgögnum, sem Intuens sagði klæðskerasniðin að ákveðnum fyrirtækjum. Fór Intuens fram á að kærunefndin leggði fyrir Sjúkratryggingar Íslands, og Fjársýslu ríkisins fyrir hönd Sjúkratrygginga, að fella niður ólögmæta skilmála í útboðsgögnunum og auglýsa útboðið á nýjan leik án skilmálanna. Loks var þess krafist að innkaupaferlið yrði stöðvað.

Var fallist á stöðvunarkröfu Intuens en leyst yrði úr öðrum kröfum með úrskurði þegar endanleg sjónarmið Intuens hafa komið fram og öllum gögnum hefur verið skilað.

Gáfu lítið fyrir rök Sjúkratrygginga

Intuens gerði athugasemd við ýmsa skilmála í útboðinu en alls voru ófrávíkjanlegar kröfur af hálfu Sjúkratrygginga 39 talsins auk þess sem var deilt um lögmæti tiltekinna valforsendna útboðsins sem varða gæði tilboða.

Þeir skilmálar sem Intuens taldi ólögmæta og til þess fallnir að útiloka fyrirtækið sneru að sex skilyrðum. Í fyrsta lagi var krafa um að bjóðandi þyrfti að geta boðið upp á heildstæða myndgreiningarþjónustu, þ.e. röntgenrannsóknir, tölvusneiðmyndarannsóknir (CT), ómskoðanir/sónar og segulómskoðanir (MRI), en Intuens er einungis með segulómsrannsóknir.

Í öðru lagi var kveðið á um að eignarhald bjóðenda skyldi vera með tilteknu móti, þ.e. að félagið þyrfti annað hvort í meirihlutaeigu heilbrigðisstarfsmanna sem starfi hjá félaginu sem launþegar við þá þjónustu sem veitt sé samkvæmt fyrirhuguðu samningi eða í eigu félagasamtaka eða sjálfseignarstofnunar sem ekki sé rekin í hagnaðarskyni.

Í þriðja lagi væri bannað væri að selja eignarhlut í bjóðanda án samþykkis Sjúkratrygginga, að óheimilt væri að stunda almenna markaðssetningu á þjónustunni. Lokst væri óheimilt að veita þjónustuna í fjarþjónustu og krafa gerð um að niðurstöður úrlestrar myndgreiningar skuli skráðar á íslensku en röntgenlæknir Intuens talar ensku og er búsettur erlendis.

Fjársýslan hefur ekki látið málið til sín taka en Sjúkratryggingar höfnuðu öllum kröfum Intuens og fullyrtu að framkvæmd útboðsins væri í samræmi við lög. Kærunefnd útboðsmála tók ekki undir rök Sjúkratrygginga og í fimm af sex atriðum sem nefnd voru hér fyrir ofan taldi nefndin verulegar líkur hafa verið að því leiddar að skilmálarnir færu í bága við lög um opinber innkaup. Þá væru ýmis atriði í útboðslýsingunni óljós og takmarkaðar skýringar fylgt.

Sjúkratryggingar hafa frá upphafi neitað að gera samning við Intuens en Samkeppniseftirlitið hefur meðal annars sagt að engar málefnalegar ástæður væru fyrir því að gera ekki slíkan samning. Þá var Sjúkratryggingum fyrr í mánuðinum gert að greiða 41 milljónar króna stjórnvaldssekt þar sem innkaup af öðrum starfandi aðilum á markaðnum hafi verið gerð heimildarlaust.

Fjallað er ítarlega um mál Intuens í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.