Carlos Ghosn, fyrrum forstjóri Nissan, hefur kært bílaframleiðandann fyrir meiðyrði og fer hann fram á einn milljarð dala í skaðabætur. Ghosn var forstjóri Nissan í Japan til ársins 2018 þegar hann var handtekinn og kærður fyrir fjármálamisferli.

Ghosn vísar öllum ásökunum á bug og segir að handtakan hafi verið tilraun til að stöðva áform hans um að sameina Nissan og Renault. Hann náði hins vegar að flýja Japan og áður en réttarhöld byrjuðu með því að fela sig í kassa og snéri aftur heim til Líbanon.

Þaðan er fyrrverandi forstjórinn að kæra 12 manns og tvö fyrirtæki um ærumeiðingar og meiðyrði. Talsmenn Nissan hafa ekki viljað tjá sig um málið en skýrslutaka mun að öllum líkindum eiga sér stað nú í september.

Ghosn mun hafa verið handtekinn í Japan fyrir að hafa vísvitandi greint vitlaust frá tekjum sínum og notað pening frá fyrirtækinu til að fjármagna einkalíf sitt. Hann hefur hins vegar neitað sök í málinu og segir japanska réttarkerfið vera svikamylla.

Flótti forstjórans á sínum tíma frá Japan vakti mikla athygli en hann mun hafa falið sig í kassa ásamt tónlistarbúnaði og þannig laumað sér út úr landinu.

Árið 2021 voru tveir bandarískir feðgar handteknir og framseldir fyrir að hafa aðstoðað hann við að flýja. Ári seinna gáfu frönsk yfirvöld út handtökuskipun á hendur Ghosn en þeim tíma sagðist hann vera fullviss um að hann gæti sannað sakleysi sitt.