Þeir sem hafa rölt um götur Shanghai, hvort sem það var fyrir Covid eða eftir að landið opnaðist á ný, hafa eflaust tekið eftir mikilli kaffihúsamenningu.

Kínverjar hafa alltaf verið mikið fyrir tehúsamenningu en undanfarna áratugi hefur kaffið einnig tryggt sér sess í þessari borg.

Shanghai er fjármálahöfuðborg Kína og eftir því sem erlendir fjárfestar og fyrirtæki byrjuðu að setjast að fór kaffihúsunum að fjölga. Kínversk stjórnvöld halda því nú fram að engin borg í heiminum hýsi fleiri kaffihús en Shanghai.

Samkvæmt skýrslu frá Shanghai International Coffee Culture Festival voru 9.553 kaffihús í borginni í lok árs 2023. Samkeppnin er þó mjög hörð og að sögn eigenda er ekki víst að öll þessi fyrirtæki geti lifað af til lengdar.

Í flestum öðrum stórborgum í Kína eru alþjóðlegar kaffikeðjur eins og Starbucks og Luckin enn vinsælastar. Í Shanghai eru það hins vegar sjálfstæð kaffihús sem prýða götur borgarinnar.

Fréttamiðillinn BBC spjallaði við nokkra kaffihúsaeigendur sem segja að kaffihúsin þar hafi breyst í vinsæla samkomustaði þar sem ungmenni klæða sig í spariföt og hittast yfir kaffibolla.

„Shanghai hefur lengi verið alþjóðleg viðskiptaborg, sem þýðir að við byrjuðum að drekka kaffi fyrir löngu síðan. Smærri borgir munu líka smám saman fá mismunandi tegundir af kaffihúsum,“ segir einn maður sem BBC ræddi við.

Mörg kaffihús í borginni eiga það einnig til að breyta stöðunum í bari þegar líður að kvöldi til að gera sig enn samkeppnishæfari á erfiðum markaði. „Ég er frekar bjartsýnn og ég vona að kínverska hagkerfið fari fljótt aftur á það stig sem það var fyrir heimsfaraldur. Ef hagkerfið byrjar að flæða á ný munu allir græða,“ segir Wang Xi, eigandi Flower Café and Bar.