Kaffihús Vesturbæjar hagnaðist í fyrra um 4,8 milljónir króna. Árið 2020 var hins vegar 6,2 milljóna króna tap á kaffinuhúsinu, en rekstrarfélagið heitir Vesturbær kaffihús ehf.
Tekjur félagsins námu 194,8 milljónum króna jukust um næstum 43 milljónir króna.
Stærsti eigandi kaffihússins er félagið Ferdinand ehf. sem er í eigu vinanna Gísla Marteins Baldurssonar, Péturs Marteinssonar fyrrum knattspyrnumanns og Einars Arnar Ólafssonar fjárfestis og stjórnarformanns PLAY, í gegnum félag sitt Eini ehf.
Opnaði árið 2014
Pétur Marteinsson, einn eigenda kaffihússins, var í viðtali við Eftir vinnu, fylgirit Viðskiptablaðsins lok september 2014, nokkrum dögum fyrir opnunina sem fór fram 6. október 2014.
„Ástæðan fyrir því að við réðumst í þetta er að við búum allir í hverfinu og þetta er eitthvað sem okkur fannst vanta. Grundvallarpælingin var að setja upp kaffihús og bistro þar sem fólk í hverfinu getur komið, hvort sem það er í morgunmat, hádegismat eða á kvöldin og fengið sér kaffi og kruðerí þess á milli.“

Grafarvogsbúar að sjálfsögðu velkomnir
Þetta verður hverfiskaffihús og þið stílið inn á Vesturbæinn. En væri ég velkominn á þriggja tonna Ford Explorer úr Grafarvogi?
„Já, en þú færð bara aðeins verri þjónustu,“ segir Pétur og brosir. „Nei nei, en þeir sem koma af Seltjarnarnesinu fá hins vegar bara Neskaffi á meðan Vesturbæingarnir fá eðalkaffi,“ bætir hann við og hlær.
„Að sjálfsögðu eru allir velkomnir, útlendingarnir líka, þó að við séum fyrst og fremst að búa þennan stað til fyrir Vesturbæinn.“