Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te og kaffi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verð á kaffi gæti hækkað á næstu misserum. Hann segir að framboð og eftirspurn ásamt loftslagsbreytingum og nýjum reglugerðum eigi þar stóran þátt.

„Maður hefur nú oft sagt í gegnum tíðina að kaffi sé ódýrasti lúxus sem allir geta leyft sér og það er örugglega enn satt. Verðið á þessum lúxus hefur hins vegar hækkað töluvert undanfarin ár.“

Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te og kaffi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verð á kaffi gæti hækkað á næstu misserum. Hann segir að framboð og eftirspurn ásamt loftslagsbreytingum og nýjum reglugerðum eigi þar stóran þátt.

„Maður hefur nú oft sagt í gegnum tíðina að kaffi sé ódýrasti lúxus sem allir geta leyft sér og það er örugglega enn satt. Verðið á þessum lúxus hefur hins vegar hækkað töluvert undanfarin ár.“

Guðmundur minnist til að mynda á harðan vetrarkafla sem átti sér stað í Brasilíu, sem framleiðir um 35% af öllu kaffi í heiminum, árið 2021. Nánast á hverju ári þar í landi kemur kuldakast og strax eftir á sér stað mikið regntímabil. Það ár hafi hins vegar rigningin ekki látið sjá sig og myndaðist mikill þurrkur sem hafði áhrif á uppskeru.

„Þetta var algjör hörmung. Það byrjaði að stíga í ágúst 2021 og fór svo verðið að pumpast upp hægt og rólega. Þegar við skoðuðum svo bækurnar árið eftir, í september 2022, þá sáum við að innkaupsverðið hafði meira en tvöfaldast.“

Te og kaffi flytur inn kaffi frá Brasilíu, Kólumbíu og Hondúras en þar að auki flytur fyrirtækið inn kaffi frá Indónesíu. Þá hafa árásir Húta í Rauðahafinu, sem höfðu mikil áhrif á siglingaleiðir undanfarna mánuði, einnig haft áhrif á þann markað og eftirspurnina frá Asíu.

Guðmundur segir að nú sér horft til næstu uppskeru í Brasilíu, sem sé nú handan við hornið. Sérfræðingar innan geirans hafa þá vonast eftir því að sjá verðlækkun en hún hafi ekki enn látið sjá sig.

„Það hefur verið nógu slæmt að þurfa að sætta sig við jafn há verð og hafa verið undanfarin þrjú ár. Kaffið sem hefur núna verið í hæstu hæðum í innkaupum hjá okkur frá haustinu 2021, það eru bara allar líkur á því að við séum að fara horfa á hækkanir frá því verði núna á næstu sex mánuðum.“

Fjárfestar hafa einnig verið að fjárfesta mikið á hrávörumarkaði undanfarin misseri og er kaffi engin undantekning.

„Allt þetta eru breytur sem eru ekki að fara gera neitt annað en að hækka verð. Þá má einnig nefna reglugerð ESB sem kallast EUDR-reglugerð um eyðingu skóga sem tekur gildi á næsta ári. Þar er krafist að vörur sem eru fluttar inn á markað séu vottaðar um að þær komi ekki frá svæðum þar sem skógareyðingar eiga sér stað. Okkar samstarfsaðilar eru enn að klóra sér í hausnum um það hvernig sú reglugerð komi til með að hafa áhrif.“