Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 2,1 milljarð króna eftir skatta árið 2022, samanborið við 1,3 milljarða hagnað árið áður. „Stjórn félagsins leggur ekki til að greiddur verði arður á árinu 2023 þar sem félagið er í vaxtarfasa,“ segir í nýbirtum ársreikningi.

Rekstrartekjur Kaldalóns, sem segist vera á lokastigum umbreytinga frá íbúðaþróunarfélagi í fasteignafélag, jukust úr 233 milljónum í 1,8 milljarða á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 1,3 milljörðum.

Matsbreyting fjárfestingareigna nam tæplega 2,5 milljörðum samanborið við 1,2 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður Kaldalóns var því um 3,8 milljarðar samanborið við 1,2 milljarða árið 2021.

Eignir Kaldalóns voru bókfærðar á 45,5 milljarða króna í árslok 2022, samanborið við 21,7 milljarða ári áður. Eigið fé fasteignafélagsins

Samstæðan átti í lok ársins fjörutíu og fjórar fasteignir til útleigu eða um 85.000 fermetra. Þar hafa 71.500 fermetrar verið afhentir og 13.500 fermetrar verða afhentir í ár.

„Ég er mjög ánægður með rekstur og niðurstöðu ársins 2022. Kaldalón hefur á skömmum tíma orðið fasteignafélag og komið sér í ákjósanlega stöðu vaxtar. Félagið er vel fjármagnað og eiginfjárstaða þess er mjög sterk, eða 45,5%. Félagið er einkar vel í stakk búið til að takast á við þær breytingar í ytra umhverfi sem nú eiga sér stað. Við erum stolt af því að leysa þarfir íslensks atvinnulífs og munum halda áfram að stækka félagið, enda trúum við því að langtímahorfur í íslensku atvinnulífi séu mjög góðar,“ segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns, í afkomutilkynningu.

Fasteignir í eigu félagsins rúmlega tvöfölduðust í fermetrum talið og jukust um 131% að markaðsvirði. Samkomulag hefur verið gert um kaup tekjuberandi fasteigna þannig að heildarstærð fasteignasafns verði 90.700 m2.

Þrátt fyrir að félagið hafi á árinu sinnt hefðbundnum rekstri, unnið ötullega að umbreytingu félagsins, tvöfaldað stærð sína og undirbúið skráningu á aðalmarkað hefur starfsmönnum félagsins náð að halda rekstrarkostnaði í lágmarki. Sá árangur leiðir af sér að hagnaður fyrir skatta er 2.611 m.kr. og hefur aldrei verið meiri. Þá er jákvætt sjóðsstreymi af rekstri félagsins sem þykir gott í eins mikilli verðbólgu og hækkun vaxta og verið hefur. Arðsemi eigin fjár var 16,2%. Lausafjárstaða félagsins er sterk og á félagið í dag fasteignir sem eru að fullu fjármagnaðar með eigin fé. Þá hefur félagið ekki dregið á skuldbindandi lánalínur banka. Við sjáum því tækifæri í því að endurfjármagna eignasafnið og nýta þá fjármuni til frekari stækkunar.

Kaldalón hefur jafnframt stigið skref að BREEAM vottun fasteigna og er langt komið með að ná markmiðum sínum fyrir skráningu á aðalmarkað Kauphallar Íslands.

Á árinu 2022 varð Kaldalón hf. að fasteignafélagi eftir árangursríkan umbreytingartíma.