Fasteignafélagið Kaldalón birti í dag umgjörð um græna fjármögnun félagsins en markmið Kaldalóns er að geta gefið út græn skuldabréf (Green Financing Framework).
Kaldalón verður með útgáfunni sjötta skráða félagið til að gefa út græn bréf en ásamt bönkunum hafa Heimar og Brim gefið út slík bréf.
Umgjörð Kaldalóns byggir á alþjóðlegum viðmiðum (e. Green Bond Principles) sem International Capital Market Association (ICMA), Alþjóðasamtök aðila á verðbréfamarkaði, hafa sett saman. Verkefni Kaldalóns sem verða fjármögnuð með grænu útgáfunni þurfa að uppfylla skilyrði umgjarðarinnar.
Samkvæmt Kauphallartilkynninguer markmiðið að fjármagna eða endurfjármagna umhverfisvottaðar fasteignir félagsins ásamt því að ráðast í umhverfisvænar fjárfestingar og önnur verkefni í samræmi við stefnu félagsins.
„Í dag birtir Kaldalón umgjörð um græna fjármögnun. Árið 2023 gaf félagið í fyrsta skipti út grunnlýsingu vegna 30 milljarða útgáfuramma skuldabréfa og víxla. Félagið gefur í dag út fyrsta græna fjármögnunarramma félagsins og mun í framhaldi gefa út græn skuldabréf á markaði.
Græn skuldabréf eru liður í fjármögnun umhverfisvænna fjárfestinga okkar á borð við umhverfisvottaðar fasteignir. Útgáfan er í samræmi við markmið Kaldalóns um umhverfisvernd og sjálfbærni,” segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
Sustainalytics vottaði umgjörð Kaldalóns. Útgáfa grænna skuldabréfa hefur stóraukist á síðustu árum og fór yfir 200 milljarða í fyrra.
Nýr ESB-staðall fyrir græn skuldabréf var innleiddur í lög hérlendis í fyrra en samkvæmt sérfræðingum á skuldabréfamarkaði mun að öllum líkindum myndast tvískiptur markaður með græn skuldabréf og ESB-vottuð græn skuldabréf.
Ráðstöfun á grænum skuldabréfum hérlendis fer langmest í umhverfisvottaðar byggingar, endurnýjanlega orku og í orkuskipti í samgöngum.
Hægt er að lesa umfjöllun Viðskiptablaðsins um græn bréfhér.