Fasteignafélagið Kaldalón hefur skrifað undir kaupsamninga um kaup á fasteignum við Hæðasmára 2-6 á 1.050 milljónir króna samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi til Kauphallarinnar í gærkvöldi.

Kaldalón kaupir fasteign við Hæðasmára 2 af Dælunni og Hæðasmára 4 af Landakoti fasteignafélagi, dótturfélagi Lyfjavals. Dælan og Lyfjaval eru í eigu Orkunnar IS, dótturfélags Skeljar fasteignafélags. Skel er stærsti hluthafi Kaldalóns með 17,4% hlut.

Samhliða kaupunum hafa verið undirritaðir leigusamningar til 20 ára við Orkuna IS um fasteign við Hæðasmára 2 annars vegar og Lyfjaval um fasteign við Hæðasmára 4 hins vegar. Leigusamningur við Orkuna IS nýtur móðurfélagsábyrgðar frá Skel fjárfestingarfélagi til 30 mánaða auk leigu- og umhverfistrygginga þegar móðurfélagsábyrgð lýkur.

Sjá einnig: Kaldalón kaupir 13 fasteignir af Skeljungi

Þá kaupir Kaldalón fasteign að Hæðasmára 6 af Kili fasteignum, sem er í eigu Guðmundar Inga Jónssonar og Þorláks Traustasonar. Dótturfélag Kaldalóns yfirtekur leigusamninga vegna Hæðasmára 6 en fasteignin er í fullri útleigu. Áætlað er að afhending á fasteigninni fari fram 1. ágúst næstkomandi eða fyrr.

Leigutekjur ofangreindra eigna nema 80 milljónum króna á ári. Áætlað er að rekstrarhagnaður (NOI) Kaldalóns aukist um 65 milljónir á ársgrundvelli eftir viðskiptin.

Kaupverð fyrir fasteignirnar þrjár greiðist með reiðufé að fjárhæð 840 milljónir og útgáfu hlutafjár í Kaldalóni að fjárhæð 210 milljónir sem miðast við meðalgengi tíu viðskiptadaga fyrir samþykkt kauptilboðs, eða 1,71 krónu á hlut.