Fyrirvarar í kaupsamningi fasteignafélagsins Kaldalóns á öllu hlutafé í annars vegar IDEA ehf. og hins vegar K190 hf. hafa verið uppfylltir samkvæmt kauphallartilkynningu Kaldalóns.
Félögin undirrituðu samning um kaupin í lok október en IDEA og K190 eiga samanlagt sjö fasteignir að stærð um 17.600 fermetrar.
Heildarvirði umræddra félaga í viðskiptunum var áætlað um 8,3 milljarðar króna en samkvæmt tilkynningu Kaldalóns eftir lokun markaða í dag hefur uppgjör og afhending eigna IDEA farið fram en aðilar komust að samkomulagi um að fasteignirnar Leirukrókur 2-3 yrðu undanskildar viðskiptunum.
Uppgjör og afhending K190 verður næstkomandi þriðjudag.
„Endanlegt heildarvirði ofangreindra félaga í viðskiptunum er 7.855 m.kr. Leigutekjur nema á ársgrunni 636 m.kr. en áætlað er að rekstrarhagnaður Kaldalóns aukist um 533 m.kr. á ársgrunni í kjölfar viðskipta,” segir í tilkynningu Kaldalóns.
Fasteignir IDEA eru Vesturvör 36, Víkurgata 11B, Völuteigur 31, Klafastaðavegur 12, Gránufélagsgata 47 og Leirukrókur 2-3.
Fasteignirnar hýsa rekstur iðn- og tæknifyrirtækisins HD.
Seljandi IDEA er Hamar ehf., móðurfélag HD og Véla og Dælu, sem er í 66% eigu framtakssjóðsins SÍA III.
Eina fasteign K190 er Klettagarðar 19, sem eru höfuðstöðvar 1912, móðurfélags Nathan & Olsen.
K190 er í eigu Sökkla eignarhaldsfélags. Sökklar er í jafnri eigu Ara Fenger annars vegar og hjónanna Bjargar Fenger og Jóns Sigurðssonar hins vegar.