Fyrir­varar í kaup­samningi fast­eignafélagsins Kaldalóns á öllu hluta­fé í annars vegar IDEA ehf. og hins vegar K190 hf. hafa verið upp­fylltir sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu Kaldalóns.

Félögin undir­rituðu samning um kaupin í lok október en IDEA og K190 eiga saman­lagt sjö fast­eignir að stærð um 17.600 fer­metrar.

Heildar­virði um­ræddra félaga í við­skiptunum var áætlað um 8,3 milljarðar króna en sam­kvæmt til­kynningu Kaldalóns eftir lokun markaða í dag hefur upp­gjör og af­hending eigna IDEA farið fram en aðilar komust að sam­komu­lagi um að fast­eignirnar Leiru­krókur 2-3 yrðu undan­skildar við­skiptunum.

Upp­gjör og af­hending K190 verður næst­komandi þriðju­dag.


„Endan­legt heildar­virði ofan­greindra félaga í við­skiptunum er 7.855 m.kr. Leigu­tekjur nema á árs­grunni 636 m.kr. en áætlað er að rekstrar­hagnaður Kaldalóns aukist um 533 m.kr. á árs­grunni í kjölfar við­skipta,” segir í til­kynningu Kaldalóns.

Fast­eignir IDEA eru Vestur­vör 36, Víkur­gata 11B, Völu­teigur 31, Klafastaða­vegur 12, Gránu­félags­gata 47 og Leiru­krókur 2-3.

Fast­eignirnar hýsa rekstur iðn- og tækni­fyrir­tækisins HD.

Seljandi IDEA er Hamar ehf., móðurfélag HD og Véla og Dælu, sem er í 66% eigu fram­taks­sjóðsins SÍA III.

Eina fast­eign K190 er Kletta­garðar 19, sem eru höfuðstöðvar 1912, móðurfélags Nat­han & Ol­sen.

K190 er í eigu Sökkla eignar­halds­félags. Sökklar er í jafnri eigu Ara Fen­ger annars vegar og hjónanna Bjargar Fen­ger og Jóns Sigurðs­sonar hins vegar.