Kaldalón hf. skilaði 1.753 milljónum króna í hagnað fyrir skatta á fyrri árshelmingi 2025, en leigutekjur jukust um 24% milli ára og fjárfestingar undanfarinna ára skiluðu sér í auknum tekjum og sterkri rekstrarstöðu.
Félagið hefur í kjölfarið hækkað afkomuspá sína fyrir árið 2025.
Samkvæmt árshlutareikningi námu rekstrartekjur félagsins 2.638 milljónum króna á fyrri árshelmingi, samanborið við 2.132 milljónir á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar var 2.056 milljónir og hagnaðarhlutfallið (NOI) var áfram hátt, eða 78%.
Matsbreyting fasteigna nam 1.833 milljónum, en hagnaður fyrir skatta lækkaði milli ára þar sem matsbreytingar voru hærri á sama tíma í fyrra. Á fyrri árshelmingi 2024 var hagnaður fyrir skatta 2.454 milljónir.
Handbært fé frá rekstri jókst þó verulega, eða um 74% þegar leiðrétt er fyrir breytingum á rekstrartengdum eignum og skuldum. Heildareignir félagsins námu tæpum 81 milljarði króna í lok júní og arðsemi eigin fjár var 11,3% á ársgrundvelli.
Félagið fjárfesti fyrir 3,5 milljarða króna á fyrri árshelmingi, meðal annars í fasteignunum Suðurhrauni 4–6 og Grjóthálsi 2 auk afhendingar nýrrar þjónustustöðvar við Lambhagaveg. Þessar fjárfestingar munu koma að fullu inn í tekjur á síðari hluta ársins.
Nýjar eignir og skuldabréfaútgáfa
Á öðrum ársfjórðungi undirritaði Kaldalón kaupsamninga, með fyrirvörum, um fasteignirnar Krókháls 16, Skúlagötu 15 og Klettháls 1A í Reykjavík. Kaupverð er 2.335 milljónir króna og greiðist með reiðufé og/eða yfirtöku skulda. Gert er ráð fyrir að kaupin auki rekstrarhagnað félagsins um 171 milljón á ársgrundvelli frá afhendingu.
Framkvæmdir eru hafnar á nýju 3.400 fermetra iðnaðarhúsnæði við Fossaleyni 19–23 í Reykjavík fyrir matvælaframleiðslu, sem verður afhent á seinni hluta næsta árs.
Á tímabilinu gaf félagið út skuldabréf og víxla fyrir 6.720 milljónir króna, þannig að markaðsfjármögnun stendur nú undir 35% af vaxtaberandi skuldum, samanborið við 21% í fyrra. Veðsetningarhlutfall helst nær óbreytt, 57,6%, og tekjuvegið útleiguhlutfall er áfram hátt eða 96%.
Uppfærð afkomuspá
Stjórnendur Kaldalóns hækkuðu afkomuspá ársins eftir sterka stöðu í rekstri og nýjar fjárfestingar. Nú er gert ráð fyrir að rekstrartekjur 2025 verði á bilinu 5.500–5.670 milljónir króna og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar á bilinu 4.270–4.430 milljónir.
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns, segir fjárfestingar undanfarinna ára nú skila sér með skýrum hætti í auknum tekjum og að félagið sé vel í stakk búið til að nýta ný tækifæri á fasteignamarkaði.
„Félagið hefur undirritað kaupsamninga og mun að óbreyttu eignast Krókháls 16, Skúlagötu 15 og Klettháls 1A í Reykjavík. Viðskiptin eru háð hefðbundnum fyrirvörum. Félagið áætlar að tekjur á ársgrundvelli aukist um 203 m.kr. frá og með afhendingu þessara fasteigna.
Heildareignir Kaldalóns við mitt ár námu tæplega 81 milljarði króna. Vaxtaberandi skuldir námu rúmlega 45 milljörðum króna og helst veðsetningarhlutfall nær óbreytt eða 57,6 %. Félagið gaf á tímabilinu út skuldabréf og víxla á markaði fyrir 6.720 milljónir króna og nema nú skuldabréf á markaði 31 % af vaxtaberandi skuldum félagsins, sem er í samræmi við stefnu um að auka vægi verðtryggingar og markaðsfjármögnunar í skuldum félagsins. Kjör markaðsfjármögnunar félagsins sýna að það eru umtalsverð tækifæri í endurfjármögnun Kaldalóns,“ segir Jón Þór.