Fjárfestingarfélagið Kaldbakur keypti 4 milljónir hluta í Högum, móðurfélagi Bónus, Hagkaups og Olís, fyrir 400 milljónir króna á föstudaginn síðasta. Gengið í viðskiptunum var 100 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Kaldbakur, sem er fimmti stærsti hluthafi Haga, á eftir viðskiptin 90 milljónir hluti, eða um 8,1% eignarhlut sem er tæplega 9,1 milljarður króna að markaðsvirði. Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Kaldbaks, er stjórnarformaður Haga.

Kaldbakur er fyrrum fjárfestingarfélag Samherja en árið 2022 var ákveðið að aðskilja félögin að fullu og hefur fyrrnefnda félagið verið sjálfstætt starfandi fjárfestingarfélag síðan. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er stærsti einstaki hluthafi Kaldbaks með 25,7% óbeinan hlut samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.