Icelandair og Play birtu uppgjör annars ársfjórðungs nú á dögunum. Icelandair skilaði 622 þúsund dala hagnaði á fjórðungnum, eða sem nemur 86 milljónum króna. Play skilaði 8,1 millljón dala tapi, sem nemur ríflega 1,1 milljarði króna, á öðrum ársfjórðungi.

Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði, segir lakari afkomu á fjórðungnum m.a. drifna áfram af þrýstingi á fargjöld sem líklega komi til vegna verri sætanýtingar í flugferðum frá Evrópu til Norður-Ameríku.

„Bandaríkjadollar er sterkur gagnvart evrunni og öðrum evrópskum gjaldmiðlum, sem gerir Evrópu að aðlaðandi áfangastað fyrir ferðamenn með dollar. Á hinn bóginn er orðið dýrt fyrir Evrópubúa að vera í Bandaríkjunum. Þetta leiðir til ójafnvægis á markaðnum, þar sem bandaríski markaðurinn hefur yfirhöndina en evrópska markaðnum gengur illa.

Þetta er líklega meginástæðan fyrir þrýstingnum á fargjöld, þar sem sætanýtingin er ágæt frá Norður-Ameríku til Evrópu, en síður en svo frá Evrópu til Norður-Ameríku. Niðurstaðan er mikill slagur á milli flugfélaga í Norður-Ameríku og Evrópu um hvern einasta farþega yfir Norður-Atlantshafið til að ná fram eins góðri sætanýtingu og mögulegt er í ferðum frá Evrópu til Norður-Ameríku.“

Hann bætir við að ef aðstæður verða óbreyttar yfir vetrartímabilið, sem hefst í nóvember og stendur til mars mánaðar á næsta ári, „þá gæti hinn kaldi vetur orðið enn kaldari fyrir mörg flugfélög.“

„Aftur á móti verður líklega áframhaldandi vöxtur á þeim hluta markaðarins sem er reiðubúinn að greiða hærra verð fyrir meiri gæði. Flugfélög sem bjóða upp á hágæða vörur eins og viðskiptafarrými munu njóta góðs af því.“

Aukið jafnvægi í augsýn

Hans bendir á að Airbus og Boeing hafi verið í vandræðum með afhendingar á nýjum flugvélum, og að þau vandræði muni halda áfram næstu 3-4 árin. Þar að auki anni flugvélaviðhalds- og viðgerðarfyrirtæki ekki eftirspurn. Þessir þættir muni að öllum líkindum leiða til aukins jafnvægis milli sætaframboðs og eftirspurnar yfir Norður-Atlantshafið á árinu 2025.

„En eftir stendur spurningin hvernig flugfélög ætla yfirhöfuð að ná jafnvægi á sætaframboði milli sumars og veturs. Viðskiptamódel Icelandair, að fljúga yfir Norður-Atlantshafið með Ísland sem tengimiðstöð, hefur gengið nokkuð vel yfir langt tímabil. Við skulum sjá til hvort Play geti verið lággjaldaflugfélag og farið eftir sama viðskiptamódeli,“ bætir Hans við.

Leiðrétting: Í grafi með fréttinni í blaðinu var því haldið fram að handbært og bundið fé Icelandair hefði numið 291,2 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi. Sú upphæð telur hins vegar einungis handbært fé, en bundið fé Icelandair nam 37 milljónum dala í lok árs 2023. Þá námu markaðsverðbréf félagsins 122 milljónum dala á fjórðungnum. Þetta hefur nú verið leiðrétt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.