Samtök Iðnaðarins (SI) og Samtök atvinnulífsins (SA) kalla eftir því í umsögn sinni um hvítbók um húsnæðismál að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis verði hækkað úr 35% í 100% til að styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins.
Ríkisstjórnin lækkaði nýlega umrætt hlutfall úr 60% í 35% og tók sú breyting gildi um mitt yfirstandandi ár. Fjármálaráðuneytið sagði lækkun hlutfallsins vera til þess fallna að sporna gegn þenslu í hagkerfinu með því að draga úr skattalegum ívilnunum á byggingarmarkaði. Ráðuneytið áætlaði að lækkun hlutfallsins hækki byggingarkostnað um nærri 2%.
Í fjárlagafrumvarpi 2024 sem birt var í gær kemur fram að tekjuáhrif af lækkun endurgreiðsluhlutfallsins úr 60% í 35% á ríkissjóð á næsta ári séu áætluð um 6 milljarða króna.
Samtök Iðnaðarins (SI) og Samtök atvinnulífsins (SA) kalla eftir því í umsögn sinni um hvítbók um húsnæðismál að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis verði hækkað úr 35% í 100% til að styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins.
Ríkisstjórnin lækkaði nýlega umrætt hlutfall úr 60% í 35% og tók sú breyting gildi um mitt yfirstandandi ár. Fjármálaráðuneytið sagði lækkun hlutfallsins vera til þess fallna að sporna gegn þenslu í hagkerfinu með því að draga úr skattalegum ívilnunum á byggingarmarkaði. Ráðuneytið áætlaði að lækkun hlutfallsins hækki byggingarkostnað um nærri 2%.
Í fjárlagafrumvarpi 2024 sem birt var í gær kemur fram að tekjuáhrif af lækkun endurgreiðsluhlutfallsins úr 60% í 35% á ríkissjóð á næsta ári séu áætluð um 6 milljarða króna.
Endurgreiðslur einungis hækkaðar til verkefna sem njóta opinbers stuðnings
Í hvítbók um húsnæðismál, sem birt var í júlí sl., eru sett fram drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Í hvítbókinni er lagt til breytingar á lögum um tekjuskatt til að festa í sessi 100% endurgreiðslu á VSK „við uppbyggingu íbúða sem hlotið hafa stofnframlög“.
„Með því væri stutt við uppbyggingu innan almenna íbúðakerfisins og útbúnir hvatar fyrir byggingaðila til að standa að slíkri uppbyggingu. Einnig mætti taka til skoðunar sambærilega meðferð fyrir aðrar íbúðir sem njóta opinbers húsnæðisstuðnings og eru með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.“
Almennar íbúðir eru leiguíbúðir sem HMS og sveitarfélög hafa veitt stofnframlög til byggingar eða kaupa á.
Mótmæla tillögunni
SI og SA mótmæla framangreindri tillögu og leggja þess í stað til að endurgreiðsluhlutfallið hækki í 100% hjá öllum uppbyggingaraðilum. Samtökin hafi talað fyrir mikilvægi þess að hækka endurgreiðsluhlutfallið og telja eðlilegt að hún nái yfir alla uppbyggingu, ekki bara við uppbyggingu á almennum íbúðum.
„Með því móti er stutt við uppbyggingu á íbúðarhúsnæði, óháð því hvort um leigu- eða séreignarhúsnæði er að ræða, og stutt við framboðshlið húsnæðismarkaðsins.“
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun sumars að lækkun endurgreiðsluhlutfallsins fari í þveröfuga átt við það sem þurfi á byggingarmarkaðnum. Breytingin feli í sér kostnaðarauka sem dragi úr framboði fremur en að hvetja til uppbyggingar.
Greining SI frá því í vor, sem byggir á könnun meðal stjórnenda verktakafyrirtækja, gefur til kynna að þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og eftirspurn á íbúðamarkaði sé í vændum umtalsverður samdráttur í íbúðauppbyggingu á næstunni, einkum vegna hás fjármagnskostnaðar.
Hlutfallið aldrei farið undir 60% áður
Sigurður benti í viðtalinu á að við upptöku núverandi virðisaukaskattskerfis árið 1988, sem tók við af kerfi söluskatts, var gerð sú stefnumarkandi breyting að VSK lagðist á vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað en þess í stað var ákveðið að hann yrði endurgreiddur til að sporna gegn hækkun á byggingarkostnaði.
Endurgreiðsluhlutfallið hefur síðan ýmist verið 60% eða 100% en aldrei farið undir þessi mörk fyrr en við breytingu ríkisstjórnarinnar í ár.
„Það er áhugavert að hugsa til þess hvernig þetta er framkvæmt. Verktakar þurfa að meta vinnuliðinn hjá sínum starfsmönnum, senda sér reikning og leggja skatt ofan á. Þetta tíðkast heilt yfir ekki í öðrum rekstri. Það má velta fyrir sér hvort það væri eðlilegra að ekki væri lagður virðisaukaskattur á vinnuliðinn heldur á íbúðarhúsnæðið við sölu. Stjórnvöld gætu þá beitt sér á eftirspurnarhliðinni ef þau vildu gera það,“ sagði Sigurður.
Enginn úr atvinnulífinu kom að hvítbókinni
Hvítbókin byggir á vinnu stýrihóps innviðaráðherra um mótun stefnu á sviði húsnæðismála og undirbúning tillögu til þingsályktunar um stefnumótun á því sviði. Stýrihópinn skipuðu Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, Hermann Jónasson, forstjóri HMS, Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður innviðaráðherra, og Lísa Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur í innviðaráðuneytinu og verkefnisstjóri húsnæðisstefnu.
Jafnframt skipaði innviðaráðherra húsnæðis- og skipulagsráð en ráðið skipuðu Ingveldur Sæmundsdóttir, Jón Björn Hákonarson, fyrrum bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Valgerður Rún Benediktsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Að vinnu við hvítbókina komu einnig Björn Ágúst Björnsson, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, Hólmfríður Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu, Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, Valdís Ösp Árnadóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, og Þorsteinn Arnalds, sérfræðingur hjá HMS.