Byggðarráð Rangárþings ytra ákvað í síðustu viku að láta vinna tillögur að hentugum lóðum undir lágvöruverslun á Hellu.
Sveitarstjóri Rangárþings ytra lýsir óánægju meðal íbúa sveitarfélagsins vegna sáttar Samkeppniseftirlitsins og Festi sem leiddi til þess að Krónan þurfti að selja verslun sína á Hellu, sem rekin var undir merkjum Kjarval, árið 2021. Samkaup tóku við versluninni og hafa rekið hana undir merkjum Kjörbúðarinnar undanfarin ár.
Fulltrúar í byggðarráði segja mikla og vaxandi þörf á lágvöruverðsverslun sem nýtist bæði íbúum og fjölmörgum gestum sem fari um svæðið ár hvert. Einn þeirra segir allar forsendur fyrir starfsemi lágvöruverslunar á Hellu vera fyrir hendi en því miður hafi slíkir rekstraraðilar ekki séð hag sinn í því að koma henni upp.
Fulltrúi D-listans segir fjölmargar lóðir, þar á meðal Faxa- og Sleipnisflatir, á nýju atvinnusvæði sunnan Suðurlandsvegar geta hentað vel fyrir slíka starfsemi og þar sé innviðauppbygging nú þegar í gangi.

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, segir í samtali við Viðskiptablaðið að umræðan sé ekki ný af nálinni en með þessari bókun byggðarráðs sé verið að skerpa á umræðunni og vekja meiri athygli á málinu.
„Það hefur lengi verið ákveðið baráttumál að koma þessu á koppinn en það eru hins vegar ekki mjög margir aðilar á Íslandi sem eru í þessum bransa. Við viljum þó meina að Hella sé kjörinn staður fyrir slíka verslun, bæði vegna staðsetningar á Þjóðvegi 1 og líka vegna allra þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á Suðurlandi,“ segir Jón og nefnir til að mynda byggingu nýrrar brúar við Ölfusá.
Íbúar óánægðir með sáttina
Hluti af sátt Samkeppniseftirlitsins og Festi frá árinu 2018 vegna samruna við N1 fólst í að Festi bar að selja verslun Kjarvals á Hellu. Árið 2021 seldi Krónan verslunina á Hellu til Samkaupa, sem hefur rekið verslunina undir merkjum Kjörbúðarinnar.
Jón segir að íbúar hafi þó aldrei verið sáttir við sátt Samkeppniseftirlitsins og Festis þar sem þeir telja að hún hafi aðeins leitt til hækkunar á vöruverði.
„Okkur finnst ekki sanngjarnt að við höfum þurft að greiða fyrir það með því að ýta versluninni út og á meðan sáttin er í gildi þá getur Krónan ekki opnað verslun á Hellu. Það geta hins vegar aðrar verslanir eins og Nettó og Bónus komið í staðinn.“
Jón er þó bjartsýnn og segir að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær lágvöruverðsverslun opni á Hellu.
„Þetta er stór hluti af daglegu lífi hjá fólki og ef við getum undirbúið okkur betur fyrir það þá gerum við það.“