Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um vanda íslensks grunnskólakerfis en á meðan áætlaður meðalrekstrarkostnaður á hvern grunnskólanema fer sífellt hækkandi hrakar námsárangri íslenskra grunnskólanema.
Meðal þeirra sem helst hafa bent á vandann og leiðir út úr honum er Viðskiptaráð Íslands. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri ráðsins, segir lykilbreytingu til að bæta námsárangur sé að mæla hann og láta þær mælingar skipta máli fyrir bæði nemendur og starfsfólk.
„Af þeirri ástæðu köllum við eftir samræmdum prófum í lestri og reikningi við lok grunnskólagöngu þar sem niðurstöðurnar eru birtar opinberlega niður á skóla og liggja einnig til grundvallar við innritun í framhaldsskóla. Starfsfólk veit þá að gögn verða birt um námsárangur þeirra barna sem útskrifast úr viðkomandi skóla og nemendur vita að námsárangur skiptir máli upp á að komast inn í framhaldsskóla að eigin vali,“ segir Björn og bætir við:
„Hvað kostnaðinn varðar þá höfum við bent á óhagkvæmni í grunnskólakerfinu. Til dæmis er kennsluskylda kennara sú lægsta á Norðurlöndum, sem þýðir að þeir verja minni tíma í kennslustofunni. Einnig hefur bæði kennurum og öðru starfsfólki fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá gerðum við nýlega úttekt á sérréttindum opinberra starfsmanna undir titlinum „Dulbúinn kaupauki“ þar sem við bendum á ýmis réttindi sem auka kostnaðinn. Til dæmis eru veikindi starfsfólks grunnskóla ríflega tvöfalt algengari en í einkageiranum, orlofsdagar fleiri og endurmenntunartengd réttindi ríkari. Allt eykur þetta kostnað á hvern nemanda.“
Hafa stjórnvöld og aðrir sem gegna lykilhlutverki innan grunnskólakerfisins gefið ábendingum og tillögum Viðskiptaráðs um menntamál gaum, verið opin fyrir að kynna sér þær nánar og sýnt áhuga á að eiga í virku samtali við ráðið um þær?
„Síðasti menntamálaráðherra brást fyrst ókvæða við tillögum okkar en breytti síðan um kúrs og átti í virku samtali við okkur eftir að hafa verið gagnrýndur fyrir þau viðbrögð. Við áttum góðan fund í kjölfarið og tókum einnig þátt í Menntaþingi, stórri ráðstefnu sem haldin var sameiginlega af stjórnvöldum og Kennarasambandi Íslands. Við höfum enda fundið á þeim stuðningi sem tillögur okkar hafa fengið að hvorki foreldrum né kjósendum finnst núverandi ástand boðlegt. Vonandi hefur ný ríkisstjórn áhuga á samtali við okkur líka. Við höfum óskað eftir fundi með nýjum ráðherra og fáum vonandi jákvæð viðbrögð.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.