Kambar byggingavörur ehf. sagði upp sjötíu manns í gær. Fyrirtækið greiddi ekki út laun um mánaðamótin og stefnir í gjaldþrot að því er segir í frétt RÚV.

Haft er eftir starfsmanni Kamba að uppsagnirnar komi illa við samfélagið á Hellu þar sem margir hafa starfað hjá félaginu.

Karl Wernersson er stofnandi Kamba. Fyrirtækið tók upp nafnið Kambar árið 2022 í kjölfar sameiningar Glerverksmiðjunnar Samverks á Hellu, Trésmiðjunnar Barkar á Akureyri, Gluggasmiðjunnar Selfoss og Sveinatungu.

Kambar hafa verið með starfsemi á Smiðjuvegi í Kópavogi, á Norðurbakka í Þorlákshöfn og á Hellu. Í maí 2023 var tilkynnt um að félagið hygðist byggja glugga- og hurðaverksmiðju í Þorlákshöfn.

Félagið velti 1,5 milljörðum króna og tapaði 57 milljónum króna árið 2023 samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins. Eignir félagsins voru bókfærðar á 1,7 milljarða króna og eigið fé var um 366 milljónir í árslok 2023.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins er Jón Hilmar Karlsson, sonur Karls, raunverulegur eigandi félagsins.

Starfsemi félagsins felst í framleiðslu og innflutningi á gluggum og hurðum, auk framleiðslu á hertu gleri og einangrunargleri.