Glæpaklíka í Bretlandi, sem sérhæfir sig í þjófnaði á kampavíni, er talinn hafa stolið kampavíni fyrir a.m.k. um 73 þúsund pund, eða sem nemur um 13 milljónum króna, úr hillum matvöruverslana víða um Bretland. Í ítarlegri umfjöllun BBC er flett ofan af aðferðafræði og starfsháttum klíkunnar.

Þegar meðlimir klíkunnar láta til skara skríða eru þeir yfirleitt þrír saman að verki og eru allir með heyrnartól til að eiga í samskiptum hver við annan og vara við ef þeir taka eftir að öryggisvörður hafi auga með þeim. Einn þjófanna er vopnaður innkaupakerru eða -körfu og raðar í rólegheitum kampavínsflöskum í kerruna eða körfuna. Annar þjófur setur svo vísvitandi öryggiskerfi verslunarinnar í gang til að afvegaleiða starfsfólk og öryggisverði. Á meðan grípur einn þjófanna gæsina og yfirgefur verslunina með kampavínið undir hendi.

„Þetta er eins og aðgerð á vegum mafíunnar. Þetta er rekið eins og fyrirtæki,“ hefur BBC eftir Sarah Bird frá samtökunum National Business Crime Solution (NBCS), en umrædd samtök eiga í samstarfi við yfir 100 fyrirtæki í verslunarrekstri um varnir gegn þjófnaði.

Fyrir um einu og hálfu ári síðan notfærði kampavíns-klíkan sér skort á kampavíni sem ríkti á meginlandi í Evrópu á þeim tíma vegna mikillar aukningar í eftirspurn að heimsfaraldri loknum og uppskerubrests. Þessi staða opnaði á ýmis tækifæri á svarta markaðnum.