Íbúar í þýska bænum Gerestried hafa lengi beðið eftir því að fá að hita íbúðir sínar með hreinni orku í gegnum jarðhita en fyrstu áætlanir, fyrir rúmum 15 árum síðan, urðu að engu þar sem ekki náðist að bora eftir heitu vatni með hefðbundinni jarðhitatækni.

Í dag hefst það verkefni á ný með notkun næstu kynslóðar jarðhitatækni en sú tækni er jafnframt notuð í olíu- og gasiðnaðinum til að bora djúpt niður í jörðu.

Fréttamiðillinn ABC greinir frá því að kanadíska fyrirtækið Eavor mun reisa fyrstu jarðhitastöð í þessum 26 þúsund manna bæ sem er staðsettur sunnan við Munchen. Stöðin verður þá nokkurs konar tilraunastöð fyrir framtíð jarðhitanýtingar í landinu.

Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðaorkumálastofnuninni er talið að tæknibyltingar í þessum geira, sem gera fyrirtækjum kleift að bora dýpra en þrjá kílómetra niður í jörðu, gætu gefið næstum öllum löndum heims þann möguleika á að nýta þessa orku.

John Redfern, forstjóri Eavor, segir að fyrri mistök á borun í bænum hafi opnað tækifæri á framtíðarvelgengni og að Gerestried væri heppilegur kostur þar sem enginn hefði sýnt verkefninu áhuga ef fyrirtækið hefði notast við þessa nýju tækni á Íslandi.

Ný jarðhitastöð mun rísa í þýska bænum Gerestried sem notast við nýja tækni frá olíu- og gasiðnaðinum.