KAPP ehf. afhenti Ný-Fisk fyrsta eintakið af nýrri krapavél í höfuðstöðvum Ný-Fisks í Sandgerði í gær. Vélin er fyrsta krapavélin með CO2 sem er fjöldaframleidd í heiminum.
Öll hönnun, þróun og smíði á vélinni hefur verið hjá KAPP en þar hafa allar krapavélar hingað til verið framleiddar.
Í tilkynningu segir að hönnun vélarinnar hafi verið lengi í þróun og unnin í samstarfi við nokkur erlend fyrirtæki. OptimICE hefur verið selt um allan heim síðan 1999 og eru flestar stærstu útgerðir bæði á Íslandi og erlendis með OptimICE í skipum sínum og í landvinnslu.
„OptimICE vélarnar hafa valdið byltingu í kælingu á fiski og kom í stað fyrir hefðbundinn flöguís. Með OptimICE hraðkælingu verður öll vinnuaðstaða mun auðveldari enda er krapinn unninn úr sjó um borð í skipum og einfaldlega sprautað úr slöngu yfir fiskinn,“ segir Heimir Halldórsson, viðskiptastjóri hjá KAPP.
Nýja vélin var einnig kynnt á sjávarútvegssýningunni í Barcelona í vor og fékk mikla athygli á sýningarbás KAPP þar.