KAPP og Loðnuvinnslan skrifuðu undir viljayfirlýsingu á Sjávarútvegssýningunni í Barcelona í dag. Samningurinn kveður á um að ganga til samninga um nýja uppsjávarvinnslu á Fáskrúðsfirði.

Lausn KAPP, sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveginn, inniheldur bæði vél- og hugbúnað fyrir flokkun, flökun og kælingu ásamt uppsetningu.

Loðnuvinnslan rekur þá fiskimjölsverksmiðju, frystihús, síldarsöltun og gerir út ísfisktogarann Ljósafell, uppsjávarskipið Hoffell og línubátinn Sandfell.

Samkvæmt félögunum er útfærsla lausnarinnar vel á veg komin og aðeins um loka frágang að ræða. Félögin stefna á að klára formlega samninga fyrir næstu mánaðarmót.

„Við erum þakklátir traustinu sem Garðar og teymi Loðnuvinnslunar sýnir okkur með að ganga til samninga við okkur. Það hefur ríkt sterkt viðskiptasamband milli félaganna og okkur hlakkar til að halda því áfram. Eins er reglulega gaman að því að lausnin sem við bjóðum nær þvert á vöruframboð okkar hjá KAPP og KAPP Skaganum, sem sýnir gott vöruframboð okkar,” segir Ólafur Karl Sigurðarson, aðstoðarforstjóri KAPP og framkvæmdarstjóri KAPP Skagans.

Garðar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir KAPP sýna mikinn styrk með þessari viljayfirlýsingu.

„Það er sannarlega ánægjulegt að sjáum fram á að landa samkomulagi við Kapp og Kapp Skagann um frekari uppbyggingu á Fáskrúðsfirði. Starfsmenn Kapp og Skaganns hafa í gegnum árin reynst okkur vel sem bandamenn í uppbyggingu félagsins og sýnt að þeir eru traustsins verðir. Endurreist félag er samkeppnishæft á hörðum markaði og þar innandyra er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Garðar.