Kopar er notaður í æðimargt, meðal annars í rafmagnstæki, eins og tölvur.

Sérfræðingar BHP Group Ltd. sem er stærsta námufyrirtæki heims, telja að eftirspurn eftir kopar muni aukast um ríflega 70% á næstu 25 árum. Ástæðan er meðal annars uppgangur gagnavera í veröldinni, samhliða aukinni áherslu á gervigreind.

Árið 2021 voru 30,4 milljónir tonna af kopar seldar á heimsvísu en árið 2050 er gert ráð fyrir því að eftirspurnin verði 52,5 milljónir tonna. Vegna þessa eru námufyrirtæki í kapphlaupi að tryggja sér koparnámur.

Í dag er um helmingur heimsframleiðslu á kopar nýttur í byggingar og einungis um 1% framleiðslunnar fer í gagnaver. Talið er að eftir 25 ár muni 7% koparframleiðslu fara í gagnaver. Einungis silfur hefur meiri rafleiðni en kopar.