Volkswagen íhugar nú, í fyrsta sinn í 87 ára sögu félagsins, að loka þremur verksmiðjum í Þýskalandi. Auk þess stendur til að lækka laun starfsfólks um 10%. Þetta kom fram á fundi starfsmannaráðs félagsins nú á dögunum, að því er kemur fram í grein FT.
Félagið hefur gefið út tvær afkomuviðvaranir á árinu og birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í síðustu viku. Þar kom fram að rekstrarhagnaður hefði dregist saman um 42% frá sama fjórðungi í fyrra. Þegar litið er til fyrstu níu mánuði ársins var hann 21% lægri en á sama tíma í fyrra.
Þá dróst bílasala félagsins um 8,3% frá því á sama fjórðungi í fyrra. Lakari rekstrarárangur milli ára kemur til vegna hærri rekstrarkostnaðar, að því er kemur fram í uppgjörinu.
Fleiri evrópskir bílaframleiðendur hafa velt upp þeirri hugmynd að loka verksmiðjum. Stellantis, móðurfélag Opel, Fiat, Peugeot og annarra félaga, er undir miklum þrýstingi ítalskra stjórnmálamanna og verkalýðsleiðtoga að loka ekki elstu Fiat verksmiðjunni í Tórínó.
Bílasala í Evrópu ekki náð sömu hæðum og fyrir heimsfaraldurinn. Hærri vextir hafa spilað stórt hlutverk og stuðlað að því að fólk heldur að sér höndum. Þá bíða margir eftir því að rafbílar verði ódýrari og þar til hleðslustöðvar verði aðgengilegri, áður en tekin sé ákvörðun um kaup á rafbíl.
Á sama tíma hafa bílaframleiðendur þurft að aðlaga sig að orkuskiptum og löggjöf Evrópusambandsins um bann við sölu á bensín- og díselbílum eftir árið 2035. Þannig hefur kostnaður bílaframleiðenda stóraukist, enda mikill kostnaður sem fylgir framleiðslu á rafbílum í Evrópu, að mestu vegna þess hve dýrar rafhlöðurnar eru.
Hvatar til rafbílakaupa innleiddir á ný
Evrópskir bílaframleiðendur hafa hvatt stjórnvöld til að setja upp hleðsluinnviði og innleiða á ný fjárhagslega hvata fyrir rafbíla. Slíkir hvatar hafa m.a. verið settir á fót á Íslandi, þar sem stjórnvöld hafa lækkað virðisaukaskatt á rafbíla og tengiltvinnbíla.
Fyrirkomulagið hefur þó breyst á undanförnum misserum. Virðisaukaskattur lagðist að fullu á tengiltvinnbíla á fyrri hluta árs 2022 og að hluta til á rafbíla um áramótin 2022/23. Frá og með janúar 2024 hafa rafbílar borið fullan virðisaukaskatt, en á móti geta kaupendur á bifreiðum undir tíu milljónum króna sótt um styrk að hámarki 900 þúsundum króna.
Líklega hefur þessi breyting á hvötum haft áhrif á kauphegðun íslenskra neytenda. Samkvæmt tölfræði Samgöngustofu er dísel algengasti orkugjafi nýskráðra ökutækja á árinu. Til samanburðar var rafmagn algengasti orkugjafi nýskráðra ökutækja á árunum 2022-2023.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild hér.